Bjarni er ábyrgur fyrir ólgunni á vinnumarkaði
BB ber því sjálfur mikla ábyrgð á ástandinu.
Björgvin Guðmundsson skrifar:
Í gær kom mjög áhyggjufullur maður fram í sjónvarpi. Hann lýsti áhyggjum, sínum yfir því, að lægst launuðu starfsmenn landsins, verkamenn, sem hafa 300 þús á mánuði í lágmarkslaun og 235 þús., kr. eftir skatt á mánuði vildu fá kauphækkun!
Þetta var BB, sem heldur um ríkiskassann. Hann sagði, að verkamenn vildu fá einhver ósköp í kauphækkun! Þetta er maðurinn, sem bar ábyrgð á kjararáði; það starfaði á ábyrgð ráðuneytis hans.
Gott ef BB handvaldi ekki formann kjararáðs, a.m.k. var sá valinn beint úr miðstjórn Sjálfstæðisflokksins. Úr innsta kjarna. Og þessi trúnaðarmaður BB brást ekki trausti hans. Hann hækkaði laun þingmanna um 70%, og laun ráðherra um 64% og laun æðstu embættismanna um allt að 48% og 18 mánuði aftur í tímann.
Og það var ekki verið að hækka laun þingmanna og ráðherra úr einhverjum 300 þúsund kr. Nei, það var verið að hækka launin um mörg hundruð þúsund, þingmenn í 1,1 milljón á mánuði fyrir utan allar aukasporslurnar, ráðherra í 1,8-2 millj. á mánuði fyrir utan öll hlunnindin.
BB hefur frían bíl frá ríkinu, sem ekur honum hvert sem er, jafnvel á kosningafundi. Venjulegt fólk þarf að borga sinn bílakostnað sjálft. Þegar BB og aðrir ráðherrar fara til útlanda fá þeir ríflega dagpeninga.
En veitir nokkuð af því til þess að borga dýr hótel og allan kostnaðinn við að búa þar? Ekki, ef hótelið væri greitt af dagpeningunum. En svo er ekki. BB og aðrir ráðherrar senda hótelreikninginn heim í ráðuneytið og einhver kostnaður slæðist inn á hótelreikninginn, einhver matarögn o.fl.
Dagpeningar eru skertir örlítið á móti. En hvað er þá gert við dagpeningana. Góð spurning. Þeir eru lagðir í banka, lagðir fyrir. Þetta er spilling á hæsta stigi. BB hefur ekki áhyggjur af þessu. Nei hann hefur áhyggjur af því að kaup verkamanna verði of hátt!
Lagt var til á alþingi, að ofurhækkanir kjararáðs yrðu afturkallaðar. BB og allir þingmenn nema Jón Þ. Ólafsson voru á móti því. En ofurhækkanir kjararáðs eiga stóran þátt í þeirri ólgu, sem nú er á vinnumarkaðnum. BB ber því sjálfur mikla ábyrgð á ástandinu. Hann þarf að líta í eigin barm.