Og ekkert er til sparað, allra síst rangindin.
Sigurjón M. Egilsson skrifar:
Fyrirlitning ritstjóra Moggans í garð þess fólks sem í dag leiðir helstu verkalýðsfélög landsins er stórmerkileg. Ekki síst í ljósi þess að verið er að reyna að laga það sem miður fór í valdatíð þessa sama manns, Davíðs Oddssonar.
„Fólkið, sem náði undir sig risafélögum með 8-17% fylgi, segir nú að raunhæft sé að laun allra almennra launamanna hækki um 60% næstu þrjú árin eða um 50% umfram verðbólgu!“
Enn og aftur nota andstæðingar launafólks, hin svokölluðu „fyrirmenni“, að gera lítið úr nýrri forystu, nýrri kynslóð, helstu verkalýðsfélaga landsins. Og ekkert er til sparað, allra síst rangindin.
„Á hinn bóginn má viðurkenna að ríkisstjórninni var vandi á höndum. Hún hefur sjálfsagt vitað eins og flestir aðrir að það lið, sem hefur stuðningslítið komist yfir mikið vald í verkalýðshreyfingunni, hafi aldrei ætlað sér að gera kjarasamninga núna án þess að fá að vinna þau skemmdarverk sem hugur þeirra stendur til.“
Pælið í þessum orðum. Hvet er maðurinn að fara og hvað meinar hann? Má vera að hann trúi að yngra fólki en hann, og vitrara, gangi það eitt til að skaða samfélagið, í stað þess að vilja breyta því til betri og sanngjarnari vegar?
Ritstjórinn hefur enn horn í síðu núverandi formanns flokksins, sem honum þykir sér mun síðri stjórnandi:
„Það vakti verulega undrun að ríkisstjórnin skyldi „spila út“ sínu „tilboði“ á þessari stundu og án staðfastrar vitneskju um að það sem hún byði, sem margt orkaði tvímælis, yrði viðurkennt sem algjör lokapunktur málsins.“