Illskan í skrifum Davíðs leynir sér ekki.
Sigurjón M. Egilsson skrifar:
Leiðari Moggans í dag er með þeim betri. Davíð Oddsson stundum hjákátlegur. Í dag nálgast hann sín fyrri met.
Hann fjallar um viljaleysi Samtaka atvinnulífsins í samningunum. Snýr reyndar öllu á hvolf. Davíð lætur sem hann hafi talað við marga.
„En það hvernig kjaraviðræður hafa þróast hefur orðið til þess að margir velta því fyrir sér hvert endatakmarkið er í raun hjá þeim sem nú hafa staðið upp frá samningaborðinu og hafið undirbúning verkfallsaðgerða. Var markmiðið að ná sem hagfelldastri niðurstöðu fyrir félagsmennina eða getur verið að eitthvað annað búi að baki? Getur verið að markmiðin séu umfram allt pólitísk?“
Það er bara ekkert annað. Lesum áfram.
„Fyrir liggur að kaupmáttur hefur vaxið hraðar hér en dæmi eru um úr sögunni eða frá öðrum þjóðum. Þetta á ekki síst við um lægstu laun, þar sem áherslan hefur verið á liðnum árum. Þá liggur fyrir að búið er að bjóða umtalsverðar hækkanir, einkum á lægri launin. Ennfremur liggur fyrir að ríkisstjórnin lagði fram mjög myndarlegt tilboð þegar horft er til hagsmuna þeirra sem lægri launin hafa.“
Já, öllu má nú nafn gefa. Smánartilboð ríkisstjórnarinnar gerði jafnvel útslagið. Það var dónalegt.
Enn og aftur reynir ritstjórinn að mynda efasemdir umboð formanna verkalýðsfélaga.
„Viðbrögð nokkurra forystumanna verkalýðshreyfingarinnar, sem eiga það helst sameiginlegt að standa í forystu með afar rýran stuðning félaga sinna að baki, eru þau að lýsa mikilli hneykslan, telja tilboðin fráleit og slíta viðræðum. Er það trúverðugt út frá hagsmunum félagsmanna þeirra? Eða býr annað að baki þessum ofsakenndu, óraunsæju og ábyrgðarlausu viðbrögðum?“
Illskan í skrifum Davíðs leynir sér ekki. Hann má þó eiga eitt. Hann nálgast staðreyndir á einum stað. Bara einum. Það er þegar hann talar um pólitíkina. Hún er flutt úr þinghúsinu við Austurvöll.