Ef Ísland vill kallast velferðarríki verður að útrýma fátæktinni.
Björgvin Guðmundsson skrifar:
Ísland vill teljast velferðarríki. En sár fátækt á Íslandi er ljótur blettur á þjóðfélaginu. Það búa 6000 börn við sára fátækt á Íslandi og þó einstakir stjórnmálamenn hafi barist hart gegn þessari fátækt hafa stjórnvöld ekkert gert í málinu.
Inga Sæland hefur barist hart gegn barnafátækt en stjórnvöld hafa ekkert gert í málinu. Þeir aldraðir og öryrkjar, sem hafa lægstan lífeyri búa einnig við fátækt og geta ekki tekið fullan þátt í samfélaginu. Hér er um að ræða þá sem einungis hafa lífeyri frá almannatryggingum („strípaðan“ lífeyri) og engar aðrar tekjur, engan lífeyrissjóð.
Þetta er ekki mjög stór hópur og auðvelt að leysa vanda hans en samt hafa stjórnvöld ekkert gert í málinu. Það er mjög alvarleg staða hjá þessum hóp; hann verður oft að neita sér um að fara til læknis, getur ekki leyst út lyf sín og á stundum ekki fyrir mat í lok mánaðar. Þetta er óásættanlegt í ríki, sem vill kalla sig velferðarríki.
Mjög margir öryrkjar búa við fátækt. Þeir,sem ekki geta unnið vegna fötlunar eða sjúkdóma hafa aðeins „strípaðan“ lífeyri,sem dugar hvergi nærri fyrir framfærslu og leyfir engan veginn fullan aðgang að samfélaginu.
Ef einhver öryrki reynir að bjarga sér með því að vinna fyrir 25-50 þúsund kr yfir mánuðinn er það umsvifalaust rifið af honum aftur vegna krónu móti krónu skerðingar, er tekið af framfærsluuppbótinni.
Lofað var að afnema þessa skerðingu 1. jan 2017 en það var svikið og svikin hafa staðið í tæpa 26 mánuði! Ríkisstjórnin telur þessa framkomu við öryrkja í lagi. Þessar aðfarir stjórnvalda gegn öryrkjum halda öryrkjum í fátækragildru.
Síðan hefur það bæst við nú, að það er verið að skerða lífeyri öryrkja og raunar aldraðra, sem búið hafa lengi erlendis, og hafa ekki haft fulla búsetu á Íslandi til þess að uppfylla skilyrði TR fyrir að fá fullan lífeyri,.
Umboðsmaður alþingis telur að ekki megi beita þá búsetuskerðingum sem búið hafa á evrópska efnahagssvæðinu en ekki er búið að leiðrétta búsetuskerðingarnar. Þeir, sem lent hafa í búsetuskerðingunum eru margir með lífeyri langt undir 100 þúsund á mánuði. Þeir búa við sára fátækt.
TR og stjórnvöld eru ekkert að flýta sér að leiðrétta þetta. Það er ekki verið að hugsa um það, að þetta fólk býr við sára fátækt.
Ef Ísland vill kallast velferðarríki verður það að útrýma fátæktinni.