Tvöfalda laun bankastjórans og byggja monthús fyrir 9 milljarða.
„Landsbankinn hf sem er að rúmlega 98% hluta í eigu þjóðarinnar á sér aðeins um tíu ára sögu en óhætt er að segja að hún sé þyrnum stráð. Á þessu tímabili hefur bankanum verið stjórnað af hópi fólks sem virðist ekki hafa gert sér grein fyrir að það er með þjóðareign í höndunum en ekki dæmigert fyrirtæki.“
Þannig skrifar Þorsteinn Sæmundsson Miðflokki í Moggann í dag.
Þingmaðurinn er gagnrýninn:
„Árið 2016 fengu stjórnendur Landsbankans harða gagnrýni í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem finna má á netinu. Í skýrslunni er sala bankans á fyrirtækjunum Vestia, Icelandic Group, Promens, Borgun og fleiri fyrirtækjum harðlega gagnrýnd en geta má þess að ritari þessa pistils gagnrýndi sölu Borgunar og hvernig hún fór fram harðlega frá fyrsta degi. Í kjölfar skýrslunnar sögðu stjórn og bankastjóri Landsbankans af sér.“
Árið 2015 viðruðu stjórnendur bankans hugmyndir að byggingu nýrra höfuðstöðva á dýrustu lóð landsins en frestuðu framkvæmdum vegna harðrar og almennrar andstöðu í þjóðfélaginu. Eftir þessa atburði tók við ný stjórn og nýr bankastjóri sem voru furðufljót að tileinka sér sömu siði og hópurinn sem sagt hafði af sér. Skömmu eftir að ný stjórn og bankastjóri tóku við var ákvörðun um kjör bankastjórans tekin frá kjararáði.
„Stjórn Landsbankans hafði lengi verið undir þrýstingi að hækka laun bankastjóra bankans til jafns við bankastjóra einkareknu bankanna,“ skrifar Þorsteinn.
„Í framhaldinu varð síðan sú þróun sem opinberast hefur nýlega nefnilega að laun Landsbankastjórans hafa nær tvöfaldast á undraskömmum tíma en hinn ríkisbankastjórinn hefur lækkað laun sín ögn með sýndargjörð. Auk þess hafa Landsbankastjórnendur dregið fram áformin um að byggja nýjar höfuðstöðvar sem hýsa eiga m.a. bakvinnslu og hagdeild bankans á dýrustu lóð landsins. Starfsemin sem þar er fyrirhuguð gæti sem best farið fram í landsbyggðunum eða í austurhverfum höfuðborgarsvæðisins. Landsbankamenn sitja fastir við sinn keip og hlusta ekki á eigendur bankans, þjóðina, né heldur kjörna fulltrúa hennar.“
„Eins og það sem hér er að framan talið sé ekki nóg, þ.e. að tvöfalda laun bankastjórans og byggja monthús fyrir 9 milljarða, stendur Landsbankinn nú í málaferlum við Lífeyrissjóð bankamanna sem stefnt hefur bankanum vegna ósanngirni í garð fyrrverandi starfsmanna ríkisrekna Landsbankans hins fyrri og ætlað brot á samningi um lífeyrisréttindi þeirra. Þeir sem Landsbankinn beitir þar órétti eru flestir starfsmenn sem áður voru andlit bankans, þjónustufulltrúar, gjaldkerar og aðrir starfsmenn að miklum meirihluta konur. Stjórnendur Landsbankans hafa brugðist trausti og þurfa að axla ábyrgð með því að láta af störfum nú þegar.“