Neytendur Verð á vöru og þjónustu er hærra hér á landi en í ESB ríkjunum, og hefur hækkað á síðustu árum í þeim samanburði, þó er það lágt miðað við það sem það var fyrir hrunið 2008.
Á árinu 2007 var verð á vöru og þjónustu 49 prósent hærra hér á landi en það var í ríkjum Evrópusambandsins. Þá var verð á þessum þáttum í fyrra einnig enn nokkuð lægra en á öðrum Norðurlöndum. Dýrast er í Noregi en þar var verð á neysluvöru og þjónustu 55 prósent yfir meðaltali ESB ríkjanna á síðasta ári, eða með öðrum orðum 38 prósent hærra en það er hér á landi. Í Danmörk er verð fjörutíu prósent yfir meðaltali ESB ríkja, í Svíþjóð þrjátíu prósent og 24 prósent í Finnlandi.
Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka.
Þar kemur einnig fram að verð á neysluvöru og þjónustu hér á landi var tólf prósent hærra en það var að meðaltali innan ESB ríkjanna á síðastliðnu ári samkvæmt upplýsingum sem Hagstofa Evrópusambandsins (Eurostat) hefur birt.
Hefur landið orðið dýrara í þessum samanburði samhliða uppsveiflunni sem hér hefur verið í efnahagslífinu undanfarin ár. Hefur það fylgt raungengi krónunnar sem hefur verið að hækka frá árinu 2009 þegar verð á vöru og þjónustu hér á landi fór niður í meðaltal ESB ríkjanna. Raungengi krónunnar hefur á fyrstu fimm mánuðum þessa árs verið 8,7 prósent hærra en það var á sama tímabili í fyrra. Miðað við það hefur verð á vöru og þjónustu hækkað enn meira yfir meðaltal ESB ríkjanna á þeim tíma. Haldist nafngengi krónunnar nálægt núverandi gildi út árið og verði verðbólguþróun í takti við okkar spá er við því að búast að verð á neysluvöru og þjónustu verði um tuttugu prósent hærra en það er að jafnaði innan ESB ríkjanna í ár.