- Advertisement -

Framkoman við aðflutt verkafólk er ömurleg

Hér verður einfaldlega að stöðva brútalismann ekki seinna en strax.

Sólveig Anna skrifar:

Helmingur félagsmanna Eflingar eru af erlendum uppruna. Okkar aðfluttu félagar koma til Íslands til að vinna og það hafa þau sannarlega gert; umþb. 90% innflytjenda eru vinnandi fólk.
Vinna þeirra hefur gert efnahagsuppgang síðustu ára mögulegan, þau sinna td. gríðarlega mikilvægu hlutverki í ferðamannaiðnaðinum. Það er staðreynd sem enginn getur neitað. En önnur staðreynd sem enginn getur neitað er sú að þeirra bíða oft algjörlega fáránlegar aðstæður. Þau, líkt og annað verkafólk á Íslandi þurfa að sætta sig við hina stórkostlega ömurlegu samræmdu láglaunastefnu sem komið hefur verið á hér af mjög einbeittu skeytingarleysi gagnvart hagsmunum vinnuaflsins. En í þokkabót eru þau sérstaklega útsett fyrir allskyns brotastarfsemi og siðlausri hegðun yfirmanna og atvinnurekenda. Frásagnirnar sem ég hef heyrt eru með algjörum ólíkindum og fylla mig af mjög innilegri reiði gagnvart þeim sem leyfa sér að koma svo illa fram við aðrar manneskjur. Kapítalisminn er mjög öflugur í því að draga fram það versta í fólki, svo mikið er víst.

Okkar aðfluttu félagar lenda sérstaklega illa í því ógeðslega ástandi á húsnæðismarkaði sem hér hefur fengið að dafna í þeim tilgangi að auðga útvalda; þeir búa í meira mæli við svokallaðan „íþyngjandi húsnæðiskostnað“ sem þýðir einfaldlega að stór hluti af tekjunum sem þetta fólk vinnur sér inn með því að sinna undirstöðustörfum í íslensku samfélagi fer beinustu leið í vasa annara. Hinn íslenski leigumarkaður er algjörlega mögnuð arðránsmaskína og það er eins gott að kröfur verkalýðshreyfingarinnar um að hún verði tekin úr sambandi nái fram að ganga. Ég vona innilega að frá þeim verði ekki hnikað. Hér verður einfaldlega að stöðva brútalismann ekki seinna en strax.

Mér líður stundum, þegar ég les áróðurspistla þeirra sem standa gegn baráttu verka og láglaunafólks, eins og að þau sem þá skrifa þekki ekki eina einustu aðfluttu verkakonu eða mann. Eins og þau hafi aldrei tekið eftir þeim mikla fjölda af fólki sem er ekki fætt á þessari eyju sem þó afgreiðir þau í búðum, gætir barna, annast aldraða og sjúka, byggir hús, keyrir strætó, afgreiðir á veitngastöðum, eldar góðgætið sem þar er reitt fram, þrífur opinberar stofnanir og fyrirtæki og svo framvegis og svo framvegis. Eins og þau sem geta ekki ímyndað sér réttlátt samfélag séu bókstaflega blind gagnvart þeim veruleika sem þó umlykur þau eins og okkur öll, eins og þau lifi í einhverju aðskilnaðarkerfi, þar sem aðeins íslensk milli- og efristétt er raunveruleg og öll hin, sérstaklega þau sem koma annars staðar frá séu ekki alvöru fólk. Ekki fólk sem eigi allan rétt í heiminum á því að fá mannsæmandi laun fyrir unna vinnu, rétt á góðu og öruggu húsnæði á eðlilegum kjörum, rétt á því að eignast sitt eigið húsnæði ef þau vilja og rétt á því að lifa frjáls undan glæpahneigð gróðasjúks fólks. 
Það er margt að í samfélaginu okkar en framkoman við aðflutt verkafólk er eitt það ömurlegasta. Það er margar ástæður fyrir því að standa með okkur verka og láglaunafólki í baráttu okkar fyrir efnahagslegu réttlæti, ekki síst sú að það er einfaldlega óþolandi að aðflutt verkafólk eigi að sætta sig við lakari kjör, erfiðari aðstæður og verri meðferð en aðrir. Hingað og ekki lengra, það er fyrir löngu komið miklu meira en nóg.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: