- Advertisement -

Stöðvið byggingu níu milljarða bankahallar

„Ég spyr: Hvar stendur forsætisráðherra í þessu máli? Lítið hefur heyrst frá því.“

„…hvað Landsbankann varðar vil ég koma því að að ég tel það algerlega tilgangslaust fyrir eiganda bankans, sem er ríkissjóður, að byggð verði einhvers konar bankahöll upp á 9 milljarða við höfnina. Ríkisstjórnin á að láta stöðva það verkefni strax. Ég spyr: Hvar stendur forsætisráðherra í þessu máli? Lítið hefur heyrst frá því. Auk þess er fyrirhuguð bygging, fagurfræðilega séð, algerlega misheppnuð að mínum dómi,“ sagði Birgir Þórarinsson Miðflokki í umræðu um hvítbók Bjarna fjármálaráðherra.

„Hvað varðar Landsbankann tel ég rétt að skoða hvort ekki eigi að nota tækifærið við söluna og endurreisa sparisjóðakerfið, aðskilja fjárfestingarbanka og viðskiptabanka og bjóða upp á samfélagslega fjármögnun um allt land. Sparisjóðirnir hafa haft mikil og jákvæð áhrif á samfélagslega framþróun hér á landi, eins og við þekkjum, með fjármálalegri milligöngu. Ég held að óhætt sé að fullyrða að þeir hafi átt stóran þátt í bættum lífsskilyrðum almennings. Markmið sparisjóðanna þegar þeir voru stofnaðir var að stuðla að auknum sparnaði meðal almennings, stuðla að efnahagslegum framförum, stöðugu aðgengi að fjármagni og vinna að félagslegum verkefnum,“ sagði Birgir.

Og um hvítbók Bjarna sagði hann:

„Við lestur þessarar hvítbókar ríkisstjórnarinnar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sé ég ekki þá framtíðarsýn sem er verið að teikna upp. Bókin er að mínu mati frekar samantekt af alls konar hugmyndum en einhver sýn.

Hún er þó gagnleg, svo langt sem hún nær. Hún er ágætlega sett upp og þægileg aflestrar. Þeir sem setja upp fjárlagafrumvarpið og fylgirit þess til prentunar ættu að taka þessa uppsetningu sér til fyrirmyndar að mínu mati.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: