Svo virðist sem Davíð viti ekki símanúmer Bjarna og sendir honum því glósur með skrifum í Moggann.
Svo virðist sem Davíð Oddsson hafi ekki símanúmerið hjá Bjarna Ben. Davíð kýs hið minnsta að skammast við hann opinberlega, það er á síðum Moggans. Í dag eru það vegaskattarnir fyrirhuguðu.
„Þessa dagana fer fram umræða um það hvort hefja eigi innheimtu veggjalda af stofnleiðum til og frá Reykjavík til þess að fjármagna tímabærar endurbætur á þeim. Nýir skattar og auknar álögur hafa löngum verið viðkvæðið þegar ráðast á í framkvæmdir. Hefur nánast verið óþægilegt að fylgjast með ákafa stuðningsmanna hugmyndarinnar, þótt efasemdir um ágæti hennar virðist nú fara vaxandi,“ skrifar Davíð í leiðara dagsins.
Hann rifjar upp að minnisblað samgönguráðuneytisins sýnir að álögur á ökumenn eru nú þegar langt umfram þá upphæð, sem rennur til vegamála.
„Ef rökin með veggjöldum eru þau að notendur vega eigi að borga fyrir þá er full ástæða til að spyrja hvers vegna ekki er hægt að nota þá peninga, sem þeir láta þegar af hendi rakna í fjárhirslur ríkisins, frekar en að búa til nýjar álögur. Ekki má gleyma því að veggjöldum fylgir ærinn kostnaður. Setja þarf upp sérstök hlið, flókinn rafrænan búnað og viðamikið innheimtukerfi.“
Er það kannski helsti hvatinn að skattheimtunni. Að einhver, til dæmis fyrirtæki eins og Borgun, fái þar með væna sneið af tertunni. Rétt eins og Finnur Ingólfsson fékk um árið þegar hann eignaðist sísona mælanna alla og skrapaði þannig inn milljörðum.
„Þá er það skrítin bábilja að rukka þurfi vegfarendur sérstaklega um lagningu vega og smíði brúa. Uppihald heilbrigðiskerfisins er ekki einskorðað við sjúklinga. Það er hluti samneyslu. Er ekki rétt að staldra við áður en lengra er haldið í veggjaldamálinu og velta því fyrir sér frá öllum hliðum?“