- Advertisement -

Bankareikningur barnsins hvarf

Reikningurinn hafði einfaldlega verið tæmdur og honum síðan eytt.

Móðir lítillar stúlku segir svo frá að ungur strákur sem hún eða maður hennar þekktu ekkert til hafi hringt til þeirra.

„Hann sagðist hafa fengið millifærslu inn á reikninginn sinn upp á rúmlega 100 þúsund krónur frá dóttur okkar. Þar sem hann þekkir dóttur okkar ekki þá grunaði hann að um mistök væri að ræða og ákvað því að láta okkur vita. Salka er tæplega 3 ára gömul og hefur ekki aðgang að heimabanka. Þó svo hún hefði aðgang að heimabanka þá ætti hún ekki að geta millifært af reikningnum sínum þar sem hann er læstur fram að 18 ára aldri,“ skrifar móðirin.

Ég ákvað að athuga stöðuna í heimabankanum og sá þá að reikningurinn hennar var horfinn úr yfirlitinu mínu. Þegar ég hringdi í bankann þá spurði starfsmaðurinn mig hvort barnið hefði örugglega verið með reikning í Íslandsbanka, nú eða hvort reikningurinn gæti kannski verið á annarri kennitölu. Það var nefnilega enginn reikningur á hennar kennitölu og enga viðskiptasögu að finna hjá bankanum.

Bankinn hafði því engar upplýsingar um hvaða reikning barnið hafði átt, hver upphæðin á reikningnum hefði verið eða hvar peningurinn hafði endað. Reikningurinn hafði einfaldlega verið tæmdur og honum síðan eytt. Ég tek aftur fram að um læstan Framtíðarreikning var að ræða sem á ekki að vera hægt að loka/tæma/eyða fyrr en barnið er orðið fjárráða.

Þar sem viðskiptasaga barnsins hjá bankanum var orðin að engu þá gat bankinn ekki rakið hvert peningurinn hafði farið nema vegna þess að strákurinn gaf mér upp kennitöluna sína í gær og því var hægt að fletta viðkomandi upp í kerfinu og staðsetja peninginn.

Dóttir okkar er núna komin með nýjan reikning og peningurinn kominn á sinn stað eftir mjög hröð og góð viðbrögð bankans í dag en þetta veldur mér samt hugarangri. Ég velti því fyrir mér hvernig þetta hefði endað ef þessi heiðarlegi strákur hefði ekki hringt og látið okkur vita. Því þá hefði ég ekki haft neitt í höndunum sem sannaði stöðu reikningsins. Endilega kíkið á heimabankana ykkar og fylgist vel með.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: