- Advertisement -

580 MILLJARÐAR ÚR RÍKISSJÓÐI TIL 10% RÍKASTA FÓLKSINS

Nýfrjálshyggjufólkið á þingi hafði einfaldlega gefið hinum ríku þennan ávinning.

Fréttaskýring eftir Gunnar Smára.

Ég held áfram að birta ykkur hryllingsmyndir nýfrjálshyggjunnar, dulbúnar sem súlurit. Súlurit dagsins sýnir ávinning af skattalækkun fjármagnstekjuskatts frá 1997 skipt eftir eignum fólks, frá 1% þeirra sem minnst eiga til 1% sem mest eiga. Eins og sjá má rann ávinningurinn af þessari aðgerð fyrst og fremst til hinna efnameiri. Af rúmlega 740 milljarða króna tekjutapi ríkissjóðs runnu 580 milljarðar til 10% efnamesta fólksins og 371 milljarður til 1% hinna ríkustu. Það gera tæplega 190 milljónir á hvern einstakling innan þess hóps, tekjur sem ríkissjóður gaf eftir til að auka auð hinna auðugustu. Eins og aðrar aðgerðir á nýfrjálshyggjuárunum miðaðist lækkun fjármagnstekjuskatts að því að styrkja stöðu hinna auðugu í stéttastríðinu, var bæði aðferð í stríðinu og ránsfengur sigurvegarans.

Lækkun skatts á fjármagnstekjur var lykilráðstöfun í stéttastríðinu ásamt lækkun tekjuskatts fyrirtækja, lækkun erfðafjárskatts og afnám eignaskatta. Þessar aðgerðir virka síðan saman og mynda spíral sem þrýstir auð hinna ríku upp. Og svelg, sem grefur undan ríkissjóði, opinberum rekstri, velferðarkerfinu og innviðum. Og leiðir til hækkunar skatta á almennt launafólk.

SVELGURINN

Stöldrum við þennan svelg. Tekjuskattur fyrirtækja er lagður á hagnað þeirra og raskar því ekki starfseminni á neinn hátt. Tekjuskattur fyrirtækja markar skiptingu hagnaðar milli ríkisins (endurgreiðsla fyrir innviði samfélagsins, vernd dómskerfisins, menntun starfsfólksins o.s.frv.) og eigenda fyrirtækisins. Þegar tekjuskattar fyrirtækja voru lækkaðir í áföngum úr 51% (1990) niður í 15% (2008) færðist 36% af hagnaði fyrirtækja frá ríkinu yfir til eigendanna, sem nýttu sér svigrúmið til að stórauka arðgreiðslur upp úr fyrirtækjunum. Þetta gerði fyrirtækin arðbærari, eins og sagt er; þau skiluðu eigendum sínum meiri arði. Ekki vegna þess að þau væru betur rekin heldur vegna þess að Alþingi ákvað að láta ríkissjóð greiða niður arð til fyrirtækjaeigenda með því að falla frá innheimtu 70% af tekjuskatti fyrirtækja; að láta hann ekki renna inn í ríkissjóðs og til sameiginlegra verkefna samfélagsins heldur beint til eigenda fyrirtækjanna til að efla auðvaldið og stétt hinna ríku.

Þessi ráðstöfun hækkaði verð fyrirtækja fljótt og vel. Fyrirtæki sem áður skilaði 100 m.kr. hagnaði og eigendum sínum 49 m.kr. eftir skatta til fjárfestinga og arð skilaði nú eigendum sínum 85 m.kr. Fyrirtæki sem metið var á sjöfaldan hlut eigendanna kostaði áður 343 m.kr. en kostaði eftir breytingu 595 m.kr. Það var orðið næstum 75% verðminna þótt ekkert hafi gerst í rekstri þess. Nýfrjálshyggjufólkið á þingi hafði einfaldlega gefið hinum ríku þennan ávinning, sannfærðari um að þau yrðu að vinna stéttastríðið.

Þegar hlutur eigendanna af hagnaði fyrirtækjanna hafði aukist vegna lækkunar tekjuskatts fyrirtækja var komið að því að lækka fjármagnstekjuskatt svo þeir gætu greitt sér arð. Það var gert 1997 þegar hætt var að leggja sama tekjuskatt á fjármagnstekjur og launatekjur. Fjármagnstekjuskattur var settur í 10%, aðeins rúmur fjórðungur af því sem innheimt var af launatekjum. Við þetta, ofan á lækkun tekjuskatts, tóku eigendur fyrirtækja að draga æ meira fé upp úr fyrirtækjunum, til eigin nota eða til að fjárfesta annars staðar. Þetta breytti því hvernig eigendur litu fyrirtækin, hvað talið var gott fyrirtæki. Áður voru fyrirtækin byggð upp og ræktuð eins og akur, það þótt gott fyrirtæki sem var traust og öflugt, vel tækjum búið, með starfsfólki sem sýndi fyrirtækinu og jafnvel að fyrirtækið ætti sér veglegar höfuðstöðvar. Eftir skattabreytingarnar var mælikvarðinn aðeins hversu mikið fé eigandinn gat sogið upp úr fyrirtækinu. Þetta eru skilin á milli kapítalisma eftirstríðsáranna og fjármálavædds kapítalisma nýfrjálshyggjunnar.

Með þessum skattabreytingum hækkaði verðmiðinn á gömlum fjölskyldufyrirtækjum, sem tryggt hafði fólki aðstöðu og öryggi kannski fremur en auð. Og það reið yfir mikil alda samruna og fyrirtækjakaupa, þar sem stærri fyrirtæki ryksuguðu upp smærri fyrirtæki í sömu grein. Eða í allt annarri grein. Á tímum fjármálavædds kapítalisma voru fyrirtækin fyrst og síðast tæki fyrir eigendur til að soga upp fé og þá var fjármálastjórnin aðalatriðið, ekki kunnátta eða reynsla af undirliggjandi rekstri. Þar sem söluhagnaður er fjármagnstekjur bar hann lægsta skattinn. Ef við höldum okkur við dæmið af fyrirtækinu með 100 m.kr. hagnaðinn þá hefði eigandi selt það fyrir um 343 m.kr. fyrir nýfrjálshyggju og haldið eftir um 205 m.kr. en eftir lækkun tekjuskatts fyrirtækja og lækkun fjármagnstekjuskatts hefði hann haldið eftir 535 m.kr. Margir fyrirtækjaeigendur úr gamla hagkerfinu trúðu vart sýnum eigin augum þegar þeir fengu tilboð í fyrirtækin sín með tilheyrandi skattaráðgjöf. Fyrirtækið sem áður var trygging fyrir atvinnu og þokkalegum kjörum fyrir eigendurna og fjölskyldur þeirra var allt í einu orðið happdrættisvinningur sem gat tryggt fjölskyldunni áhyggjulaust líf í nokkrar kynslóðir.

Þetta var um samspil lækkunar tekjuskatts fyrirtækja og fjármagnstekjuskatts. Árið 2005 voru eignaskattar afnumdir sem dró enn úr vörn skattkerfisins gegn auðsöfnun hinna fáu. Eins og Thomas Piketty hefur manna ötulast bent á er kapítalisminn tæki sem leiðir til ójöfnuðar; færir sífellt fé frá þeim sem lítið sem ekkert eiga til þeirra sem mikið eiga. Eignaskattar eru lykilatriði til að sporna við þessu, um 2-3% eignaskattur er lágmark að sögn Piketty til að hamla gegn mesta óréttlætinu og svo auka skattur á hin allra auðugustu, en eitt af einkennum kapítalisma vorra tíma er að auður hinna allra auðugustu eykst enn hraðar en þeirra sem eiga minna.

Á nýfrjálshyggjuárunum var erfðafjárskattur líka lækkaður, það varð kostnaðarminna að flytja auð milli kynslóða. Og breytingin er líka huglæg; eignaréttarhugmynd nýfrjálshyggjunnar og hægri manna hafði unnið hugmynd eftirstríðsáranna um hut samfélagsins í auðsöfnun hinna fáu.

Saman vinna þessar skattalagabreytingar að því að gera eigendum kleift að draga meira fé upp úr fyrirtækjum, auka þar með verðmæti þeirra, flýta fyrir samþjöppun fyrirtækja, draga úr skattheimtu af arði og söluhagnaði og taka úr sambandi hömlur skattkerfisins gegn auðsöfnun hinna fáu í gegnum eigna- og erfðafjárskatt. Þetta er í senn markmið o siður nýfrjálshyggjunnar; að brjóta niður jafnaðarsamfélag eftirstríðsáranna og auka auð hinna ríku, og þar með vald þeirra í samfélaginu. Nýfrjálshyggjan er stéttastríð hinna ríku og meginmarkmið þeirra var að bæta hag sinn í gegnum skattkerfið og nota síðan aukin auð til að beygja undir sig stjórnmálastéttina, stjórnsýsluna, fjölmiðla og aðrar stofnanir samfélagsins. Nota síðan stóreflda stöðu til að ná undir sig eignum og auðlindum almennings, opinberum rekstri og ákvörðunum um allt sem máli skiptir í samfélaginu.

LÆKKUN FJÁRMAGNSTEKJUSKATTS FORSENDA AUÐS HINNA RÍKU

Ef við leggjum venjulegan tekjuskatt á fjármagnstekjur frá 1997, samkvæmt grunni Ríkisskattstjóra, þeim sama og tekjusagan.is byggir á; kemur í ljós að samanlagður skattaafsláttur síðan þá nemur um 742 milljörðum króna. Það eru gríðarlegir fjármunir, eiginlega ómögulegt að útskýra hversu mikið fé það er. Níu háskólasjúkrahús, um 400 kílómetrar af jarðgöngum (frá Reykjavík til Akureyrar). Höfum í huga að þegar þessi ákvörðun var tekin, að höggva niður fjármagnstekjuskatt, var ekki lögð fram kostnaðaráætlun um hvað þessi ákvörðun myndi kosta. Og enn síður hverjir myndu hagnast.

1% eignamesta fólkið hefur fengið 371 milljarð króna af þessu fé, það er rétt helmingur. Þótt látið hafi verið í það skína að ákvörðunin væri almenn var henni fyrst og síðast ætlað að auka auð hinna allra auðugustu, færa sem mest fé frá hinum mörgu til hinna fáu.

Ef við reiknum hvað fólk fékk að meðaltali á þessu tímabili þá er ávinningur mikils meirihluta fólks lítill sem enginn og mun minni en sem nam hækkun tekjuskatts launatekna á tímabilinu. Það er í raun ekki nema fólkið sem tilheyrir 10% hinna ríkustu sem naut einhvers af ráði af þessari skattalækkun, fengu ríflega 580 milljarða af þessum 742 eða 78% af kökunni.

Ef við tökum saman hag fólks af lækkun skatta á fjármagnstekjur og berum það saman við hreina eign fólks þá kemur í ljós að þessi skattalækkun er ígildi vel innan við 10% af hreinni eign allra eignahópa upp að 8% hinna ríkustu. Og þetta hlutfall hækkar hægt þar til dregur nær toppnum. Það er 10% hjá þeim sem eiga minna en þau 10% sem eiga mest, er 12% hjá þeim sem eiga minna en þau 5% sem eiga mest, er 20% meðal þeirra sem eiga minna en þau 2% sem eiga mest og 30% hjá þeim sem eiga minna en það 1% sem á mest. En hjá hinum allra ríkustu, því 1 prósenti sem á mest, er hlutfall skattaafsláttarins 100% af eignum þess. Þótt þetta hlutfall sé aðeins vísbending, þá sýnir það skýrt að skattabreytingar nýfrjálshyggjunnar færðu fyrst og fremst fé frá ríkissjóði til hinna allra ríkustu. Skattabreytingarnar eru forsenda auðs hinna allra ríkustu, þau auðguðust á að ná völdum yfir ríkinu og nota þau til að færa sér aukinn auð.

·        





Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: