GLEYMDI KATRÍN OPNA BRÉFINU?
Björgvin Guðmundsson skrifar:
Virðulegi forsætisráðherra, frú Katrín Jakobsdóttir!
„Hér með skora ég á þig að beita þér fyrir því, að lífeyrir þeirra aldraðra og öryrkja, sem hafa lægstan lífeyri, verði strax hækkaður, þar eð hann nægir ekki til framfærslu. Hér er um að ræða þá aldraða og öryrkja, sem eingöngu hafa tekjur frá almannatryggingum. Um tiltölulega lítinn hóp er að ræða og því ætti að vera auðvelt að leiðrétta umræddan lífeyri.“
Þannig hljóðaði upphaf á opnu bréfi til Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, sem ég skrifaði og birti 18.janúar 2018 fyrir tæpu ári. Ég sendi einnig aðstoðarráðherra hennar eintak af bréfinu, þar eð ég treysti ekki á Katrínu að hún sæi opna bréfið (gæti verið í útlöndum að hitta Merkel eða Macron). Bréfið barst í ráðuneytið. En ekkert svar barst frá Katrínu. Hún þarf ekki að svara þegnunum. Þó boðaði ríkisstjórn hennar að auka ætti samstarf við þingið, stjórnarandstöðuna og auka samstarf við samtök í landinu, við þegnana. Ekkert hefur gerst í að efna þetta og stjórnarandstaðan kvartar yfir því að samstarf í þinginu hafi ekki verið aukið. Þetta haf reynst orðin tóm.
Á þessu tæpa ári sem liðið er frá því ég sendi Katrínu Jakobsdóttur opið bréf, og bréf beint í ráðuneytið um vanda lægst launuðu aldraðra og öryrkja hefur ríkisstjórn hennar ekki hækkað lífeyrinn um eina krónu að eigin frumkvæði, ef frá er talin verðlagshækkun á þessu ári, 3.6% ,sem nær ekki verðbólguhækkun en verðbólga er 4%.
Skipaður var starfshópur til þess að fjalla um vanda þeirra, sem verst eru staddir. Starfshópurinn hefur skilað áliti og leggur til, að lífeyrir útlendra eldri borgara, sem flutt hafa hingað til lands og hafa sætt búsetuskerðingu hjá TR verði hækkaður svo og lífeyrir íslenskra eldri borgara, sem dvalið hafa erlendis og sæta búsetuskerðingu; lífeyrir þeirra verði einnig hækkaður.
En ekkert er minnst á hækkun þeirra, sem ég fjalla um í opnu bréfi til forsætisráðherra. Það er gott og blessað að gera eitthvað fyrir þá, sem sætt hafa búsetuskerðingu en ég tel vanda þeirra, sem bréf mitt tekur til ekki síður alvarlegan. Sá hópur getur ekki framfleytt sér þar eð ríkisvaldið hefur svikist um að leiðrétta lífeyrinn nægilega. Það er verið að brjóta stjórnarskrána á þessu fólki.