- Advertisement -

Lögmaður sakar saksóknara um fjárdrátt og skattalagabrot

Samfélag Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður skrifar á Facebooksíðunni sinni harða gagnrýni á vefritið Kjarnann, en skrif lögmannsins eru ekki síður gagnrýni á embætti sérstaks saksóknara, þar sem hann lætur að því liggja að embættið hafi jafnvel brotið lög.

Hann segir Kjarnann hliðhollan sérstökum saksóknara. „Kjarninn fjallar aldrei um lögbrot Embættis sérstaks saksóknara, sem hafa verið æði mörg og alvarleg, eins og dómur í svokölluðu Ímonmáli staðfesti.“

Og Sigurður reiknar með að meira eigi eftir að upplýsast. „Fleiri brot eiga eftir að koma í ljós t.d. það þegar embættið lét líta svo út að samningur sem gerður var í nafni þess í mars hefði verið gerður í janúar tiltekið ár. Dagsetning sumsé fölsuð. Kjarninn gæti spurt hvernig þessu var svarað við rannsókn á vegum ríkissaksóknara og hvort sérstakur saksóknari hafi í raun orðið tvísaga þegar hann gaf skýrslu.“

Sigurður gagnrýnir fleiri fjölmiðla en Kjarnann. „Brot gegn mannréttindum sakaðra manna eiga ekki upp á pallborðið í Kjarnanum og öðrum fjölmiðlum sem verja gerðir og athafnir Embættis sérstaks saksóknara. Þeir sem benda á þau eru handbendi og á mála hjá sakamönnunum og þar með úr leik, ómarktækir.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Skattalagabrot saksóknara?

Ef rétt reynist bendir Sigurður G. Guðjónsson á fleiri lögbrot sem stunduðu er af sérstökum saksóknara. „Kjarninn ætti að spyrja vini sína og heimildarmenn hjá Embætti sérstaks saksóknara hvort það sé rétt að Jón H. B. Snorrason lögfræðingur hjá lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu sé og hafi um langahríð verið vertaki hjá sérstökum og hafi tekið að sér að semja ákærur fyrir sérstakan í vinnutíma sínum hjá lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu. Sé það rétt hvenær sinnir þá Jón starfi sínu sem launþegi hjá ríkinu ?

Eins væri gott ef Kjarninn gæti upplýst um vinnu prófessors Sigurðar Tómasar við Háskólann í Reykjavík og fleiri verktaka fyrir Embætti sérstaks saksóknara, sem í raun eru hreinir gerviverktakar, sé horft til þess hvernig skatturinn hefur litið á sambærileg tilvik hjá einkafyrirtækjum og ættu því að vera á launaskrá hjá Embætti sérstaks saksóknara.“

 Fjárdráttur sérstaks saksóknara

Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður sakar embætti sérstaks saksóknara um að hafa tekið fé ófrjálsri hendi.

„Kjarninn gæti svo einnig spurt að því hvaða umboð Embætti sérstaks saksóknara hafði til að greiða Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og slitabúi Glitnis hf. um 100 milljónir, sem Hæstiréttur gerði í dómi sínum upptækar í ríkissjóð í kjölfar haldlagningar sérstaks.

Fé þetta var fé ríkissjóðs í vörslum Embættis sérstaks saksóknara, sem af ásetningi og í auðgunarskyni ráðstafaði fénu til aðila sem ekkert tilkall áttu til þeirra. Miðað við túlkun á fjárdráttarákvæði almennra hegningarlaga braut Embætti sérstaks saksóknara gegn því með því að greiða meintum brotaþolum féð.

Til ráðstöfunar á fé ríkissjóðs þarf lagaheimild. Embætti sérstaks saksóknara er á fjárlögum og verður að halda sig innan þeirra. Embættið hefur enga heimild til að ráðstafa vörslufé ríkissjóðs í eigin þágu eða til þriðja manns. Auðvita verður þetta brot Embættis sérstaks saksóknara ekki rannsakað fremur en önnur brot. Embættið er jú ,,góði kallinn“ sem Eva Joly sagði að mundi ná í nánast allt fé sem vondu kallarnir geymdu á reikningum í skattaparadísum.“

Kjarninn, útgáfa sérstaks saksóknara?

„Þá mætti Kjarninn fara að spyrja að því hvað þetta bix, Embætti sérstaks saksóknara,sem illu heilli var komið á fót með lögum 2008, hefur kostað skattgreiðendur og hver hefur verið eftirtekjan í krónum og aurum,“ skrifar hæstaréttarlögmaðurinn. Hann segir Kjarnann nánast vera útgáfa á vegum embættis sérstaks saksóknara, „…svona eins og Tíund þá sem skatturinn gefur út m.a. til að segja frá eigin afrekum.“ Hann segir Kjarnann alltaf fjalla um meint afbrot starfsmanna og stjórnenda föllnu bankanna. „Kjarnin fjallar um litla Ísland í einhverju, sem heita á leiðari vefritsins, og tengsl manna hér á landi. Tengslin og smæð samfélagsins eiga að vera undirrót spillingar. Eru ekki allir í samfélaginu alltaf að efla hið svokallaða tengslanet til þess að geta aukið áhrif sín og skarað eld að eigin köku. Ég á von á því að Kjarnaliðið reyni í sífellu að auka tengslanet sitt til að geta haft af Kjarnanum tekjur.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: