- Advertisement -

Er Alþingi verr skipað nú en þá?

Sigurjón M. Egilsson skrifar: Snemma eftir myndun Viðeyjarstjórnarinnar 1991, þegar Davíð og Jón Baldvin náðu saman, vildi Jónas Kristjánsson að ég yrði þingfréttamaður DV. Stundum hugsa ég til þess tíma og ekki síst þegar ég fylgist með umræðum á Alþingi dagsins í dag. Þegar ég hugsa til baka finnst mér sem áður hafi þingið verið skipað atkvæðameira fólki en nú er.

Til að skýra mál mitt ætla ég setja nefna þrjá þingmenn úr hverjum flokki þess tíma, sem þá áttu þingmenn. Flokkunum raða ég upp eftir stafrófsröð.

Alþýðubandalag: Svavar Gestsson, Ólafur Ragnar Grímsson og Ragnar Arnalds.

Þau sem muna þennan tíma vita að ekki var alltaf friður milli þeirra. Einkum kom Svavari og Ólafi Ragnar illa saman. Sem breytir ekki því að allir voru þeir þrír þungavigtarmenn í stjórnmálum. Svavar var þeirra mælskastur.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Alþýðuflokkur: Jón Baldvin, Jóhanna Sigurðardóttir og Jón Sigurðsson.

Þetta var hörkulið. Jón Baldvin var þeirra fremstur. Hörkunagli og er enn. Jóhönnu þekkja allir. Í stað Jóns Sigurðssonar gat ég allt eins nefnt Sighvat Björgvinsson. Þingflokkur Alþýðuflokksins var drifin áfram að ástríðu fyrir stjórnmálum.

Framsóknarflokkur: Steingrímur Hermannsson, Halldór Ásgrímsson og Ólafur Þ. Þórðarson.

Hver sem kynntist Steingrími mun alltaf nefna hann meðal fremstu stjórnmálamanna. Mannasættir og snillingur í að landa erfiðum málum. Halldór var mistækur en hann komst til mikilla valda og var á þeim árum sem hér eru til umfjöllunar alltaf vel undirbúinn og það munaði oft um hann. Ég nefni Ólaf Þ. Þórðarson þar sem hann var sérlega orðheppinn og óhræddur við að sigla sína leið.

Kvennalisti. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Kristín Halldórsdóttir og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir.

Þær þrjár voru afgerandi í sínum flokki þar sem mestu munaði um Ingibjörgu Sólrúnu. Hún gaf helstu stjórnmálamönnum hinna flokkanna ekkert eftir.

Sjálfstæðisflokkur: Davíð Oddsson, Friðrik Sophusson og Þorsteinn Pálsson.

Þeir fóru fremst í sínum flokki. Allir þungavigtarmenn í stjórnmálum. Davíð var alls ekki fremstur ræðumanna, en náði til sín mestu völdunum og hélt lengi. Friðrik og Þorsteinn voru Davíð nauðsynlegir. Þeir voru sannir stjórnmálamenn. Margir aðrir eftirminnilegir voru í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Til að mynda Matthías Bjarnason.

Alþingi í dag. Ég velti stundum fyrir mér hvaða þingmenn samtímans myndu komast í þennan hóp. Þeir væru eflaust fáir, ef þá einhver. En sitt sýnist hverjum um það sem annað.


 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: