- Advertisement -

Fleiri en þúsund iðnaðarmenn fóru

Vinnumarkaður „Ég veit ekki töluna, en veit að við höfum tapað meira en þúsund velmenntuðum iðnaðarmönnum úr landi. Hugsanlega eru þeir ekki á leiðinni til baka og við verðum að fylla upp í þau skörð. Bara í húsasmíðinni vantar okkur sennilega um tvö hundruð nýja nemendur á ári. Við náðum þessu í góðærinu, en hvorki fyrir það né eftir hrun. Þetta gerir að við erum undirmönnuð,“ sagði Finnbjörn A. Hermannsson, formaður Félags byggingamanna, í viðtali í morgunþætti rásar 2.

Tilefnið var komandi byggingaframkvæmdir, og ekki síst ætlun borgaryfirvalda að standa að byggingu allt að þrjú þúsund ibúða í Reykjavík á allra næstu árum. „Ef íbúðirnar verða byggðar á þremur til fjórum árum verður þetta ekkert vandamál,“ sagði Finnbjörn.

„Við þurfum 1.500 til 1.800 íbúðir á markaðinn  á hverju ári. Fyrirhugaðar íbúðir koma til með að fylla í þá þörf, þó búsetuformið sé annað.“

En fjölgar verkefnum hratt. „Markaðurinn er að fara af stað núna. Það eru miklar hótelbyggingar framundan og víða er byrjað að byggja. Það er talað um nýtt kísilver á Grundartanga, á Bakka og víðar. Síðan mun þurfa að virkja og það er mannaflsfrekt líka. Þá skiptir máli að ekki séu allir að byggja samtímis. Ef það er gert þá verður þetta ekki óyfirstíganlegt. Vandamálið okkar er að þetta er ótryggur markaður, einsog komið hefur í ljós á síðustu árum.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þörfin fyrir iðnema er meiri en aðsóknin í námið.

„Það vantar miklu fleiri iðnnema. Það er kominn ágætis skriður á byggingariðnaðinn. Það er nóg að gera og bætist mörg verkefni við mun fara að skorta mannskap og þá skiptir máli að við löðum til okkar ungt fólk sem lærir þessar greinar. Við getum tekið á móti þrjú til fjögur hundruð nemum á ári í byggingagreinarnar. Við eigum að geta mannað þetta fljótt með íslensku vinnuafli.“

Finnbjörn segir óstöðugleika erfiðan. „Ríki og sveitarfélög verða að koma inn þegar lítið er að gera á almennum markaði og draga síðan til baka þegar stórframkvæmdir fara af stað.“

Hann segir þetta oft vera í ökkla eða eyra, mikil vinna eða lítil. „Þannig viljum við ekki hafa okkar starfsumhverfi,“ sagði Finnbjörn A. Hermannsson á rás 2.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: