„Einn helsti stjórnmálaspekingur Ríkisútvarpsins og Dagblaðsins Egill Helgason hefur lengi haft horn í síðu bréfritara, sem gott telst, og gasprað margt og haft uppi stóryrði honum til hnjóðs, sem er ekki síðra. Yfirleitt hefur verið óþarft að gera athugasemd vegna þess hver fer með og því með litla vigt. En til gamans skal birtur kafli úr nýlegu skrifi þessa spekings sem ekki má á milli sjá hvort sæki meira í „siðareglur“ „RÚV“ eða Dagblaðsins, enda sjálfsagt ekki allur munur á.
Þannig hefst drjúgur kafli Reykjavíkurbréfs morgundagsins í Mogganum. Þar baunar Davíð Oddsson á Egil Helgason
Þegar umræður um sendiherraskipanir tengdist hneykslunarmáli „Klaustursins við Templarasund“ þótti nauðsynlegt að fara tæp 15 ár aftur í tímann til að koma höggi á „óvininn.“ Pistillinn fjallaði um sendiherrakapalinn ógurlega, sem er sagður hafa verið bíræfinn,“ bætir hann við. Og vitnar síðan í skrif Egils.
„Annað dæmi um þetta er þegar Davíð Oddsson skipaði fjölda skósveina sinna sem sendiherra árið sem hann var utanríkisráðherra. Þeir voru tíu talsins á þessu eina ári – annað eins hefur ekki gerst í sögu utanríkisþjónustunnar. Þar af var hópur manna sem hafði unnið með Davíð í forsætisráðuneytin, Albert Jónsson, Ólafur Davíðsson og Kristján Andri Sveinsson. Svo voru gamlir bandamenn úr pólitíkinni eins og Júlíus Hafstein og Markús Örn Antonsson. Í utanríkisþjónustunni var ekki nokkur þörf á öllum þessum sendiherrum. Þetta voru dúsur – umbun fyrir fylgispekt.“
„Það hlýtur að vera dapurlegt fyrir „virðulegt“ Dagblaðið að sitja uppi með ómerking sem aftur og aftur er staðinn að ómerkilegum dylgjum og fráleitum fullyrðingum í bland, en það má vel vera að það sé bara gott á „RÚV“.
Alla vega sér þar ekki á svörtu,“ skrifar Davíð. Hér að neðan eru svo „athugasemdir“ Davíðs við sendiherraskipanirnar.
Það er annars merkilegt að virðulegir miðlar eins og Dagblaðið og „RÚV“ láti eins og þarna fari marktækur álitsgjafi. Þarna talar Egill „sérfræðingur“ þessara miðla svo smekklega um að á einu ári hafi Davíð Oddsson skipað 10 „skósveina sína“ í embætti sendiherra en „ekki hafi nokkur þörf verið á öllum þessum sendiherrum“. Kristján Andri sem þarna er nefndur til sögu er að vísu ekki Sveinsson heldur Stefánsson. Hann hafði verið í forsætisráðuneytinu við störf í háa herrans tíð áður en Davíð Oddsson bar þar inn. Hann átti honum ekkert að þakka. Hann hafði raunar byrjað þar sem sendill í tíð afa síns Kristjáns Eldjárns. Síðar var hann einn af burðarásum forsætisráðuneytisins enda einn af öflugustu mönnum þess. Hann fluttist yfir í utanríkisráðuneytið samkvæmt reglum um færslur á milli ráðuneyta án sérstakrar skipunar. Þegar sóst var eftir því að hann færi til Eftirlitsstofnunar ESA þótti rétt að hann bæri titil sendiherra. En þar með bættist hann ekki í hóp sendiherra ráðuneytisins því að hann var að formi til skráður út úr ráðuneytinu á þessum tíma, reglum samkvæmt. Kristján Andri Stefánsson varð síðar sendiherra í París 10 árum eftir að Davíð Oddsson fór úr ráðuneytinu. Albert Jónsson, einn færasti sérfræðingur Íslands í erlendum málefnum, var skipaður sendiherra af Geir H. Haarde utanríkisráðherra. Ólafur Davíðsson var skipaður sendiherra í Þýskalandi í ráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar í utanríkisráðuneytinu, en Ólafur hafði starfað sem ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu í nær hálfan annan áratug og naut mikils álits að verðleikum, með afburðaþekkingu á íslenskum málum og náin tengsl við Þýskaland. Júlíus Hafstein hafði sendiherratitil en óskaði aldrei eftir því að fara utan „á póst“. Hann stóð sig með prýði í ráðuneytinu. Óljóst er með vísun í hvaða hluta af sínu yfirgripsmikla þekkingarleysi Egill Helgason kemur sér upp 10 sendiherraskipunum. En hugsanlegt er að hann reyni í blekkingarleik sínum að telja þá með Svein Björnsson og Helga Gíslason sem fengu sendiherraskipun skömmu áður en þeir hættu í ráðuneytinu eftir löng og farsæl störf og var það gert í samræmi við gömul fyrirheit þar. Hvernig Egill þessi fær það til að ganga upp að þar hafi verið um sérstaka „skósveina“ að ræða þótt annar embættismaðurinn heiti vissulega Sveinn er í meira lagi undarlegt. Enn undarlegra er að halda því fram að „óþörfum“ sendiherrum hafi fjölgað við þessa heiðursskipun þeirra við starfslok, sem enginn ágreiningur var um að þeir höfðu unnið til.