- Advertisement -

„Ég eignaðist engar vinkonur“

Fólkið í Eflngu, mynd og texti Alda Lóa: „Ég er kokkur á Cocina Rodrígues í Gerðubergi. Hingað koma margir eldri borgarar til okkar í hádegismat og þeir elska Dóminíska matinn hjá okkur, þeim finnst hann alls jafnvel betri en Íslenski maturinn, það segja þau. Dóminísk kjötsúpa er í miklu uppáhaldi, það er ekki þessi súpa með lambakjötinu, heldur er þetta blanda af svínakjöti, kjúklingakjöti og nautakjöti, heill maís og grænmeti, soðið saman í súpu. Brún hrísgrjón með svörtum baunum er líka ofboðslega vinsælt, og djúpsteiktur heill karfi á pönnu með linsubaunum líka. Ég er stundum með baunarétti, til dæmis með nýrnabaunum og þá notum ekki baunir úr dós, við leggjum baunirnar í bleyti og sjóðum þær og eldum kássu og djúpsteikjum „Plantage“ sem eru stóru bananarnir sem eru notaðir í matseld og ferska lárperu sem meðlæti. Kalkúnalæri með sætri kartöflumús þykir líka mikið lostæti. Eldri borgararnir elska matinn, þau koma og þakka fyrir sig, þau eru svo þakklát.

Ég kom fyrst til Íslands 10 ára gömul og fór í Háteigsskóla þegar mamma flutti hingað. En Ísland átti ekki vel við hana, ég veit ekki hvað það var, hún átti góðann mann á Íslandi, en ætli það hafi ekki verið kuldinn. Við fluttum aftur heim þegar ég var fjórtán ára en síðan hef ég hef flakkað á milli en kom endanlega til að setjast hér að fyrir þrem árum. Mamma reyndi meir að segja aftur að flytja hingað, en það gekk heldur ekki í seinna skiptið og núna er hún alfarin heim og líður vel með fjölskyldunni sinni. Hún fór í nám, hún ætlar sér að verða snyrtisérfræðingur.

En mér líður vel á Íslandi þrátt fyrir að hérna kemur aldrei neitt sumar og þrátt fyrir að mér fari hægt fram í íslensku. Í eldhúsinu hérna fer mér auðvitað lítið fram í tungumálinu af því við erum öll spænskumælandi, aftur á móti æfi ég mig í íslensku í hinni vinnunni minni, á frístundaheimilinu þar sem ég vinn eftir hádegi. Ég er dáldið feimin að tala íslensku af því mér finnst ég segja allt vitlaust sem er kannski ástæða fyrir því að ég hef eignast fáa íslenska vini. En svona var þetta líka þegar ég var barn í Háteigsskóla og Ölduselsskóla þá var ég oftast ein, ég eignaðist engar vinkonur, og sat alltaf ein. En Íslendingar eru kannski frekar lokaðir, þeir eru gott fólk en þeir tala ekki mikið.

Stelpan mín á hinsvegar fullt af vinum, hún er svo opin og talar við alla. Hún er sjö ára og elskar snjó og vini sína og þvertekur fyrir það að flytja til Dóminíska Lýðveldisins. Hún er frjálsari ferða sinna hérna en þar. Ég hef það líka gott hérna, sakna bara sólarinnar og fjölskyldunnar en vinkonur mínar og vinnufélagar eru fjölskyldan mín hérna.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Við mæðgurnar göngum saman í skólann hennar á morgnanna og þaðan tek ég strætó hingað og byrja klukkan átta að elda og vinn til hádegis og stundum líka á laugardögum. Eftir vinnuna í eldhúsinu tekur við hin vinnan mín á frístundaheimilinu þar sem ég er með krökkunum til klukkan fimm. Fyrir báðar vinnur fæ ég borgað samtals 210 þúsund krónur eftir skatt, afþví fara 102 þúsund í leigu þegar ég dreg frá 53 þúsund í húsaleigubætur á mánuði, ég leigi kjallara íbúð sem er allt í lagi fyrir okkur tvær, ég leigi hjá góðu fólki.

Mig langar að taka bílpróf og eiga kannski bíl en það kostar mikið og mig langar að leyfa stelpunni minni að stunda fimleika, en ég hef ekki skráð hana enn þá, það kostar um það bil 47 þúsund krónur og svo leggst ofan á búningarnir og allt sem tilheyrir. Það er smá erfitt. Ég er að bíða og sjá.

Ég myndi vilja klára nám og fá betur launaðri vinnu. Ég átti eitt ár eftir í stúdentspróf í skólanum í Santo Domingo þegar ég hætti og eignaðist stelpuna mína, en núna stefni ég á að fara í bakaranám. Ég elska að baka kökur, ég kann ekki mikið en æfi mig heima. Mér finnst skemmtilegt að skreyta þær, en ég borða ekki mikið kökur, ég hef aldrei verið mikið fyrir sætindi.“

Madelyn Santos Pena er kokkur og frístundaleiðbeinandi og félagi í Eflingu.#fólkiðíeflinguSjá fleiri sögur um fólkið í Eflingu:http://folkid.efling.is/


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: