- Advertisement -

„Bylmingshögg í kviðinn“

- segir Vilhjálmur Birgisson á Akranesi

„Enn og aftur fáum við Akurnesingar bylmingshögg í kviðinn þegar kemur að atvinnuöryggi á okkar félagssvæði en í dag var 20 frábærum starfsmönnum með gríðarlegan og farsælan starfsaldur að baki sagt upp störfum hjá Norðuráli,“ segir á vefsíðu  Verkalýðsfélags Akraness vegna uppsagna á Akranesi.

„Af þessum 20 starfsmönnum eru 7 sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness og hafa þeir flestir haft samband við formann félagsins í dag og eðli málsins samkvæmt eru þeir og samstarfsfólk þeirra í miklu áfalli.

Formaður VLFA lýsir undrun sinni á þessari aðgerð stjórnenda Norðuráls í ljósi þess að um eða yfir 10% af heildarkostnaði fyrirtækisins er launakostnaður og því telur formaður að hægt hefði verið að leita hagræðingar í hinum 90% sem liggja í rekstrarkostnaði fyrirtækisins.

Það liggur fyrir að Norðurál er vel rekið fyrirtæki sem hefur nánast skilað hagnaði hvert einasta ár frá því að það hóf starfsemi 1997 að undanskildum 2 árum ef formaður man rétt.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það er mikilvægt fyrir stjórnendur Norðuráls að muna að það er fólkið á gólfinu sem hefur helgað sig starfi sínu og starfsævinni sem skapar hagnaðinn í fyrirtækinu og því er það dapurlegt að þegar örlítið blæs á móti að þá sé fólkið á gólfinu og millistjórnendur leitt í uppsagnarfallexina.

Eins og áður sagði þá höfum við Akurnesingar svo sannarlega fengið að finna fyrir bylmingshöggum í kviðinn þegar kemur að atvinnuöryggi starfsfólks á okkar svæði. Nægir að nefna þegar HB Grandi sagði upp hátt í 100 manns fyrir rúmu ári síðan og því segir formaður: Við erum búin að fá nóg af svona vinnubrögðum og köllum eftir að fyrirtæki sem vilja láta taka sig alvarlega á íslenskum vinnumarkaði sýni samfélagslega ábyrgð!  Það er allavega að áliti formanns afar harðneskjulegt gagnvart fólki sem hefur margt unnið nánast frá upphafi starfsemi verksmiðjunnar að teyma það út eins og sauðfé til slátrunar ef þannig má að orði komast.  Allavega er ömurlegt að fólk sem mætir grunlaust til vinnu sé kallað inn á skrifstofu, fái uppsagnarbréfið, sé látið tæma starfsmannaskápinn sinn og sé síðan teymt út fyrir girðingu og ekið heim. Svona gera menn ekki!“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: