Björgvin Guðmundsson skrifar: Samkvæmt lögum á lífeyrir aldraðra og öryrkja að breytast miðað við launaþróun eða í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs. Áður var miðað við breytingu á vikukaupi verkafólks. Davíð Oddsson, þá forsætisráðherra, beitti sér fyrir þessari breytingu og lýsti yfir, að hún yrði hagstæðari eldri borgurum og öryrkjum en gamla viðmiðið. Það hefur ekki reynst svo.
Stjórn KJ á ársafmæli eftir nokkra daga. Hvað hefur hún hækkað lífeyri aldraðra og öryrkja mikið á þessu fyrsta ári stjórnarinnar: Svar: 0%.
Fjármálaráðherra upplýsir það í svari við fyrirspurn frá Þorgerði Katrínu, að þessi litla hækkun, 4,7% um síðustu áramót hafi verið ákveðin haustið 2016 af þáverandi stjórn (Framsóknar og Sjálfstæðisflokks).
Miðað við það hefur stjórn KJ ekki hækkað lífeyrinn um eina krónu þrátt fyrir loforð í kosningunum um að hækka ætti lífeyri aldraðra.
Fjármálaráðherra upplýsir einnig í svari við fyrirspurn Þorgerðar Katrínar, að við ákvörðun um hækkun lífeyris um síðustu áramót hafi launaskrið verið dregið frá við ákvörðun um hækkun lífeyris og þess vegna hafi talan 4,7% verið fundin út en ekki 6,3% eins og launavísitalan hækkaði um.
En í lögunum stendur einfaldlega að miða eigi við launaþróun og að mínu mati tilheyrir launaskrið einnig launaþróun og engin heimild að undanskilja launaskrið. Það er stöðugt níðst á öldruðum og öryrkjum í launamálum. 2015 hækkuðu laun um 14,5%-40%. Þá hækkaði lífeyrir um 3%!!
Það var níðst á öldruðum og öryrkjum. 2017 hækkaði launavísitala um 6,3%. En lífeyrir hækkaði um 4,7%. Það var níðst á öldruðum og öryrkjum. Er fjármálaráðherra á móti öldruðum og öryrkjum?