SA flaggaði árvissum sveiflum
„Engin stórkostleg teikn á lofti hvað varðar Vinnumálastofnun um að samdráttur sé fram undan,“ segir forstjóri Vinnumálastofnunar.
SA birti könnun þar sem þeirra félagsmenn sögðust ætla að sega upp starfsfólki og sumir segjast þegar hafa sagt upp fólki. Fréttin varð að aðalfrétt Moggans.
Í Mogganum í dag klárar blaðið loks fréttina. Þá kemur fram að fréttin er engin frétt, hið mesta pínulítil frétt.
Í Mogganum segir: Gissur Pétursson, forstöðumaður Vinnumálastofnunar, segir að Vinnumálastofnun hafi ekki orðið vör við uppsagnir í þeim mæli sem fram kom í könnun SA um uppsagnir 3.100 starfsmanna fyrirtækja innan SA síðustu 90 daga og áformum um uppsagnir 2.800 starfsmanna næstu 90 daga.
„Þetta fólk streymir ekki allt inn á atvinnuleysisskrá góðu heilli, þannig að fólk virðist vera að finna sér önnur störf eða er á uppsagnarfresti,“ segir Gissur sem bendir á að það taki Vinnumálastofnun lengri tíma að finna fyrir uppsögnum en stofnunin myndi finna fyrir því ef ástandið væri að versna til muna. Enn sé mikil eftirspurn eftir fólki í byggingarvinnu og umsóknir um atvinnuleyfi streymi inn.
„Við reiknum alveg með því að það geti fjölgað á atvinnuleysisskrá um nokkur hundruð manns líkt og gerist oft yfir hörðustu vetrarmánuðina en ekki þúsundir. Vinnumálastofnun hefur ekki búið sig undir áfall á vinnumarkaði og það eru engin stórkostleg teikn á lofti hvað varðar Vinnumálastofnun um að samdráttur sé fram undan,“ segir Gissur.