Neytendastofa húðskammar drónasala
Tala um margra klukkutíma skemmtun en rafhlaðan endist aðeins í fimm til átta mínútur. Drónasalarnir virtu Neytendastofu ekki viðlits og svöruðu engu sem um var spurt.
Neytendastofa setur ofan í við forsvarsmenn fyrirtækisins Vodcom, en þeir selja dróna og skrifa á umbúðirnar: „Náðu margra klukkustunda skemmtun með fótbolta-drónanum – fljúgandi, upplýsti dróninn sem þú stjórnar með höndunum“. Í leiðbeiningum sem hafi fylgt með vörunni inni í kassanum komi hins vegar fram að það taki um tuttugu til þrjátíu mínútur að hlaða drónann og að hann fljúgi í fimm til átta mínútur eftir hleðslu.
Neytendur blekktir
„Að mati Neytendastofu er hægt að skilja fullyrðingu Vidcom á þann veg að endingartími rafhlöðu sé margar klukkustundir. Útilokað sé því fyrir hinn almenna neytanda að átta sig á því, af fullyrðingunni einni og sér, eins og hún sé framsett utan á umbúðum fótboltadrónans, að hlaða þurfi í hvert skipti sem fótboltadróninn sé notaður og raunverulegur endingartími sé því aðeins fimm til átta mínútur í hvert sinn.“
Fullyrðingar stangast á
„Í þeim tilvikum sem fullyrðingar geta verið margræðar og til þess fallnar að neytendur túlki þær með öðrum hætti en auglýsandi ætlar þegar hann setur þær fram verður auglýsandi að gefa skýringar samhliða fullyrðingunni um það hvað felist í henni. Þrátt fyrir að frekari skýringar komi fram í því tilviki sem hér um ræðir þá verður að horfa til þess að neytanda verður það ekki ljóst fyrr en eftir kaupin þar sem þær upplýsingar koma aðeins fram í leiðbeiningum sem fylgja með inni í lokuðum umbúðum vörunnar.“
Banna viðskiptahættina
„Vidcom Ísland ehf., Álfabakka 14, hefur með birtingu fullyrðingarinnar „Náðu margra klukkustunda skemmtun með fótbolta-drónanum – fljúgandi, upplýsti dróninn sem þú stjórnar með höndunum“ án þess að fram komi skýringar um að hlaða þurfi í hvert skipti eftir notkun og að endingartími rafhlöðu sé aðeins fimm til átta mínútur, brotið gegn ákvæðum 4. mgr. 6. gr., b. lið 1. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 9. gr., sbr. 5. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.
Með vísan til 2. mgr. 21. gr. b. laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, er Vidcom Ísland ehf. bannað að viðhafa ofangreinda viðskiptahætti. Bannið tekur gildi við birtingu ákvörðunarinnar. Verði ekki farið að banninu má búast við að tekin verði ákvörðun um sektir.“