- Advertisement -

Um reynslu og reynsluleysi

Reynsla hinna reyndu hefur svo sannarlega ekki komið sér vel fyrir vinnuaflið á Íslandi. Við höfum verið jaðarsett í samfélaginu, án pólitískra áhrifa.

Sólveig Anna, formaður Eflingar skrifar: Einhver í Silfrinu sagði að stemmninguna hjá sumum verkalýðsfélögum væri mögulega hægt að útskýra með reynsluleysi. Nú get ég ekki svarað fyrir aðrar en mig sjálfa en ég veit að ég hef voðalega mikla reynslu af allavega einu:
Því að vera ómenntuð láglaunakona á íslenskum vinnumarkaði.
Og ég hef líka ægilega reynslu af því að tala við annað fólk sem hefur gríðarmikla reynslu af því að lifa og starfa sem verka og láglaunafólk á íslenskum vinnumarkaði. Og þessi reynsla, mín eigin og hinna hefur útskýrt vel og vandlega fyrir mér þessa staðreyndir:
Við höfum verið jaðarsett í samfélaginu, án pólitískra áhrifa, án þess að mikilvægi okkar væri viðurkennt, án þess að nokkuð tillit væri tekið til húsnæðisþarfa okkar þegar yfirvöld og auðstétt fengu að efna til góðæris, án þess að komið væri í veg fyrir að skattbyrðin væri í sífelldu flutt yfir á okkar bök, án þess að nokkur gerði neina tilraun til að tryggja að aðfluttu verkafólki byðu mannsæmandi aðstæður, án þess að tryggt væri að gömlu verkafólki byði góð og áhyggjulaus elli, og svo mætti lengi telja.

Ég er vissulega reynslulaus í mörgu; hef enga reynslu af því að eiga pening, enga reynslu af því að skipa öðrum fyrir og enga reynslu af því að ráða. Og enga reynslu af því að búa í samfélagi þar sem mín mikla og mikilvæga vinna er metin að verðleikum (hvernig ætli það sé?).
En getur einhver sagt af heiðarleika að samningsmódelin og samningatæknin sem notast hefur verið við hafi komið sér vel fyrir fórnarlömb samræmdrar láglaunastefnu og að öll sú mikla reynsla sem þau sem hér hafa stýrt og stjórnað hafa af því að stýra og stjórna hafi komið sér vel fyrir láglaunafólk, aðflutt verkafólk, gamalt verkafólk, þau sem ekki geta verið á vinnumarkaði, þau sem eiga ekki mömmur og pabba sem geta lánað peninga fyrir íbúðarkaupum?

Ég er til í að viðurkenna og horfast í augu við næstum allt um sjálfa mig og dettur ekki í hug að reyna að breiða yfir reynsluleysið. En ég er líka til í að horfast í augu við og viðurkenna næstum allt um samfélagið sem ég bý í og er þess vegna til í að segja eins og ekkert sé:
Reynsla hinna reyndu hefur svo sannarlega ekki komið sér vel fyrir vinnuaflið á Íslandi. Og það er löngu tímabært að stjórar og reynsluboltar ýmiskonar hlusti þegar vinnuaflið talar af reynslu um líf sitt og tilveru og þegar vinnuaflið segir af fullum heiðarleika frá því hvað það þarf til að eiga möguleika á góðu og mannsæmandi lífi.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: