Eru atvinnurekendur óvinir launafólks?
Kannski má segja að þeir Íslendingar sem berjast gegn þessu öllu geti talist vera óvinir launamanna.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir vill ólm skipa sér í vörnina gegn sanngjörnum kröfum launþega um að laun þeirra dugi til framfærslu. Áslaug Arna sparar sig hvergi. „Einn af þeim frösum sem við höfum fengið að heyra mikið af á undanförnum misserum er að atvinnurekendur séu óvinir launamanna,“ skrifar hún í Moggagrein.
Enn eru atvinnurekendur óvinir launamanna? Svarið er ekki einfalt. Sumir þeirra og aðrir ekki. Eðlilega.
Hjalti Tómasson, sem starfar við vinnustaðaeftirlit, hefur sagt að framkoma sumra atvinnurekenda á Íslandi sé með því versta, ef ekki það versta sem hann hefur heyrt um. Hjalti sagði algengt að erlendum starfsmönnum séu greidd lægri laun en ber að gera og oftast er greitt með peningum, ekki í gegnum banka. Ekkert sé gert til að tryggja réttarstöðu starfsmanna.
Eðlilega á þetta ekki við um alla atvinnurekendur. Eðlilega. Hinir eru bara allt of margir. Það er málið. Gegn því þarf að berjast.
Skynsama fólkið
„Skynsömu fólki má vera ljóst að kröfur háværustu verkalýðsfélaganna eru ekki bara óraunhæfar og óskynsamlegar, heldur með öllu ábyrgðarlausar og aðeins til þess fallnar að búa til falsvonir,“ skrifar þingmaðurinn.
„Sem betur fer þekkja margir vel til mála og geta tekist á við óskynsemina með efnislegum og málefnalegum hætti. Það hafa að vísu ekki allir jafn digra sjóði og stéttarfélögin hafa en við skulum vona að skynsemin hafi yfirhöndina, sem tryggir launafólki betri lífskjör – stöðugleika og aukinn kaupmátt.“
Nauðsynlegt að spyrna við fótum?
„Einn af þeim frösum sem við höfum fengið að heyra mikið af á undanförnum misserum er að atvinnurekendur séu óvinir launamanna. Ekkert gæti verið fjær sanni. Hvorir um sig geta ekki lifað án hinna. Það er sameiginlegur hagur atvinnurekenda og launafólks að vel gangi í rekstri. Bættur hagur launafólks er bættur hagur fyrirtækjanna og öfugt,“ skrifar Áslaug Arna og bætir við.
„Hugmyndafræði sósíalista sem nú hafa hæst í aðdraganda kjarasamninga er hugmyndafræði sem byggist á og sækir næringu í sundrungu. Henni er ætlað að reka fleyg, ekki aðeins milli atvinnurekenda og launafólks heldur einnig milli stétta. Sagan kennir okkur hvaða afleiðingar það hefur. Fyrir launafólk, ekki síður en eigendur fyrirtækja, er nauðsynlegt að spyrna við fótum.“
Eflaust getur hvert og eitt okkar efast um að þessi orð séu sett fram af fullri alvöru, kannski alls ekki. Verkalýðshreyfingin hefur trúlega sjaldan verið eins samtaka og nú. Þar er ekki sundrung. Verkefnið er ærið. Það þarf að berjast, já berjast, gegn skattamismuni stéttanna, það þarf að tryggja að fólki dugi að vera í einni vinnu til að geta dregið fram lífið.
Kannski má segja að þeir Íslendingar sem berjast gegn þessu öllu geti talist vera óvinir launamanna.