Skrifari er á Spáni, nánar tiltekið í Campoamor í Alicantehéraði. Golf er afþreying okkar hér. Golfvellirnir eru margir og góðir. Okkar heimavöllur er La Finca. Auk hans höfum við spilað á Las Ramblas, Alicante Golf og El Plantio.
Hvað skemmtunina varðar eru La Finca og Alicante Golf bestu vellirnir. Las Ramblas er erfiður og El Plantio er alls ekki í sama gæðaflokki og hinir vellirnir.
Það getur verið dýrt að spila golf á Spáni. Til eru leiðir til að lækka kostnaðinn. Einkum fyrir það fólk sem dvelur í lengri tíma.
Til dæmis með því að gerast meðlimur, en það er hægt minnst í sex mánuði. Við erum meðlimir í La Finca og borgum 1.250 evrur hvort í sex mánuði. Að uki borgum við fimm evrur hvert sinn sem við spilum.
Þar sem sami eigandi á einnig Las Ramblas og Villamartin fáum við góðan afslátt ef við leikum á þeim völlum.
Klippikort eru einnig vinsæl. Fjörutíu hringir kosta 1600 evrur.
Vellirnir hér eru flestir lengri en vellirnir á Íslandi. La Finca er rúmir 6.000 metrar á gulum teigum og 5.400 á rauðum og 5.700 á bláum teigum.
Þetta er fyrsti kaflinn í Golf fyrir alla.