Afurðarstöðvar sleppi undan samkeppnislögum
Tveir þingmenn Framsóknarflokks með lagafrumvarp þessa efnis. Sagt gert vegna samkeppni frá útlöndum. Vilja fækka sláturhúsum.
„Með frumvarpinu er lögð til breyting á búvörulögum í því skyni að undanþiggja afurðastöðvar í kjötiðnaði ákvæðum samkeppnislaga,“ segir í greinargerð með lagafrumvarpi þeirra Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, Líneikar Önnu Sævarsdóttur Framsóknarflokki.
Þær segja tilganginn vera að veita innlendum kjötiðnaði tækifæri til að hagræða og til að bregðast við ört vaxandi samkeppni að utan. „Í alþjóðlegum samanburði eru innlendar afurðastöðvar í kjötiðnaði örsmáar og því ekki samkeppnishæfar við afurðastöðvar á erlendum mörkuðum sem eru mun stærri og hagkvæmari rekstrareiningar. Innlendur kjötiðnaður er engu síður í vaxandi samkeppni við afurðir frá erlendum mörkuðum. Afurðarstöðvar í kjötiðnaði geta mjög takmarkað sameinast þar sem það er í andstöðu við ákvæði samkeppnislaga. Það skilar sér í of háum rekstrarkostnaði, háu verði til neytenda og lágu afurðaverði til bænda.“
Þær hafa, eins og góðum og gegnum Framsóknarmönnum sæmir, miklar áhyggjur af erlendu kjöti.
„Þróun síðustu missera sýnir að innflutningur er að aukast umtalsvert og flutningsmenn þessa frumvarps telja að innlendir aðilar standi þar höllum fæti. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að leggja til að afurðastöðvum verði heimilað að bregðast við samkeppninni neytendum og bændum til hagsbóta með því að auka hagræði í rekstrinum. Samkeppnin er við erlenda framleiðendur sem eru margfalt stærri en þeir sem hér er að finna. Með frumvarpinu er því lagt til að afurðastöðvar í kjötiðnaði verði undanþegnar ákvæðum samkeppnislaga en fyrir því eru fordæmi þar sem mjólkuriðnaður er samkvæmt búvörulögum undanþeginn ákvæðum samkeppnislaga. Enn fremur er lagt til að slíkir samningar um sameiningu, samkomulag um verkaskiptingu og samstarf verði lagðir fyrir ráðherra landbúnaðarmála til upplýsingar.“
Þær telja að samþykkt frumvarpsins muni hafa jákvæð áhrif fyrir afurðastöðvar og bændur og hafa í för með sér hagstæðara verð fyrir neytendur.