Þorvaldur Jóhannsson, fyrrum bæjarstjóri á Seyðisfirði, skrifar grein í Moggann ósáttur með samgönguáætlun Sigurðar Inga Jóhannssonar.
Þorvaldur rifjar upp að meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, það er árið 2016, hafi talið svigrúm til að hefja vinnu við Fjarðarheiðargöng samhliða gerð Dýrafjarðarganga. „Því miður hefur það ekki gengið eftir,“ skrifar hann og minnir á gefin fyrirheit um gerð gangna undir Fjarðarheiði.
„Já, sæll, ert’ ekki að grínast, Sigurður Ingi? Það er því mikið reiðarslag og „hreint rothögg“ nú þegar Fjarðarheiðargöng eru loksins innskrifuð og komin á dagskrá sem næst í röðinni, að þá leggur samgönguráðherra fram samgönguáætlun sem gerir ráð fyrir að allri jarðgangagerð á Íslandi verði frestað í 10-15 ár. Hann hefur látið hafa eftir sér að hann hafi skilning á gagnrýni Seyðfirðinga og segir: „Göng undir Fjarðarheiðina eru komin tímasett í röðina og fáist aukið fé í samgöngumálin á næstu árum þá getur það opnað möguleika á að flýta þeirri framkvæmd“ (mbl. 25.10. sl).“