- Advertisement -

Leikfélag Reykjavíkur vill ganga í SA

Páll Baldvin: „…samræmist það stefnumiðum félagsins og leikhús og menningarstofnana yfirleitt að sitja í Samtökum atvinnulífsins og þekkjast stefnumið þess hóps og hugsjónir?“

„Góðan dag. Á aðalfundi Leikfélags Reykjavíkur á mánudag 29. október lýsti formaður félagsins yfir þeim vilja stjórnar að sækja um aðild að Samtökum atvinnulífsins í gegnum Samtök verslunar og þjónustu,“ skrifar Páll Baldvin Baldvinsson.

„Fámennur aðalfundur hafði engar athugasemdir við það ráðslag, utan þess að ég varaði við því sökum reynslu minnar af setu í samninganefnd fyrir Félag Leikstjóra á Íslandi mörg undanfarin ár en þar hefur einn samningsaðili okkar, RUV ohf. spilað fram samningamönnum frá SA skrifstofustjóra RUV til fulltingis og er sú reynsla ekki til framdráttar listafólki, bæði sökum vanþekkingar SA-manna á því starfi sem sviðslistafólk stendur fyrir og svo hinu að samtökin fylgja fram harkalegri hagsmunagæslu sem er andsnúin almennum kjörum vinnandi fólks og vill takmarka þau og skerða á allan máta.

Nú má spyrja hvað rekur ráðandi öfl í stjórn LR til að taka þetta skref :Eggert Guðmundsson formann og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur varaformann og hversvegna aðrir stjórnarmenn svo sem Ármann Jakobsson, Ingibjörg Guðmundsdóttir og Hilmar Oddsson þ. e. meirihluti stjórnar hafa ekki stöðvað þessa hugdettu. SA rekur mjög harða stefnu í mörgum málum samfélagsins og afar umdeilda. Er listastofnun sem á að halda uppi umræðu og gagnrýni á gildi, stefnumið og rangindi rétt fyrir komið í SA. Gaman væri, raunar brýnt, að sviðslistafólk gerði grein fyrir skoðun sinni á þessu markmiði stjórnar LR: samræmist það stefnumiðum félagsins og leikhús og menningarstofnana yfirleitt að sitja í Samtökum atvinnulífsins og þekkjast stefnumið þess hóps og hugsjónir?“

 

 

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: