Þrælaeyjan Ísland: Vinnum lengstan vinnudag og eigum lengsta starfsævi
Mun fleiri eldri borgarar á vinnumarkaði hér en þekkist annars staðar.
„Íslenskir karlar eru 10,5 árum lengur í vinnu en karlar í Evrópusambandslöndum að meðaltali. Þá er starfsævi íslenskra karla um átta árum lengri en karla í hinum löndunum á Norðurlöndum. Íslenskar konur eru tæplega 12 árum lengur á vinnumarkaði en konur í Evrópusambandslöndum. Í samanburði við hin löndin á Norðurlöndum eru íslenskar konur tæplega sjö árum lengur á vinnumarkaði en konur á hinum löndunum á Norðurlöndum,“ segir í rannsókn VR.
„Flestir Íslendingar byrja að vinna á sumrin sem unglingar og margir vinna með skóla. Þá er einnig þekkt að Íslendingar halda margir áfram að vinna eftir að taka lífeyris hefst. Samkvæmt tölum Hagstofu Evrópusambandsins er yfir þriðjungur ellilífeyrisþega starfandi á Íslandi. Tæpur helmingur segist halda áfram að vinna til að hafa nægar tekjur en um 40% segjast halda áfram að vinna vegna ánægju í starfi, segir í umfjöllun VR.“
Þetta þýðir að því er fram kemur í greininni að hvergi í Evrópu vinnur fólk jafn stóran hluta ævinnar og á Íslandi.
Starfsævi íslenskra karla er 48,8 ár. Íslenskar konur eyða fleiri árum ævi sinnar í vinnu, eða 45,2 árum, en þeir karlar sem vinna lengst að íslenskum karlmönnum undanskildum. „Karlar frá Sviss eru á vinnumarkaði 44,9 ár að meðaltali og raðast beint á eftir íslenskum körlum, og á eftir íslenskum konum.