- Advertisement -

Viljum við erlenda fjárfesta í ferðaþjónustu?

Ari Trausti Guðmundsson og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir eru ekki samstíga í afstöðunni til erlendra fjárfesta í ferðaþjónustu.

Ari Trausti Guðmundsson. „Ég spyr hvort það sé raunverulega vilji fyrir þessu.“

„Erlendar fjárfestingar í ferðaþjónustu eru ekki miklar að svo komnu. Þær eru í flugi, aðallega fjármögnun kaupa á vélum; rætt var um kaup á Vow á ákveðnu tímabili. Þær finnast í hótelum og gistingu. Það er nýtt hótel við Hörpu. Kea-hótelin, lúxushótelið á Deplum í Fljótum. Og það má nefna Airbnb og slíkt, þó að það sé óbein fjárfesting. Í afþreyingu má nefna verkefnið Fly Over Iceland og svo má minnast á að erlendar ferðaskrifstofur hafa sumar verið með smáfjárfestingar hér vegna útibúa á Íslandi.“

Þetta sagði Ari Trausti Guðmundsson á Alþingi. Hann sér breytingar fram undan.

„Breytingar eru í aðsigi. Sædýrasýning með mjöldrum er í uppsiglingu í Eyjum, stórt verkefni með fjárfestingu yfir milljarð. Það eru fleiri hótel á landsbyggðinni, einhver náttúrutengd afþreying, jafnvel heilsutengd. Þetta er hvísl sem maður heyrir. Og í samgöngum má hugsanlega nefna rútufyrirtæki og ef svo færi að Uber og Lift kæmu hér og fleiri slík fyrirtæki má kalla það fjárfestingu.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

En vilja Íslendingar erlenda fjárfesta?

„Ég spyr hvort það sé raunverulega vilji fyrir þessu. Þetta er svipuð þróun og hefur verið annars staðar þar sem er hagnaðarvon og milljónir ferðamanna á faraldsfæti en hún hefur verið hægari en víðast hvar erlendis. Ég spyr hæstvirtan ráðherra um hennar mat á vaxandi erlendum fjárfestingum í ferðaþjónustu, hvort hún telji að þær muni aukast mikið og hvað við vitum nú þegar af slíkum verkefnum í burðarliðnum.“

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir.
„Í samræmi við þessa stefnu aðstoðar fjárfestingarsvið Íslandsstofu erlenda aðila sem hafa áhuga á að fjárfesta á Íslandi.“

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamálaráðherra er ekki í minnsta vafa.

„Almennt séð er erlend fjárfesting í atvinnulífi æskileg. Þannig kappkostum við Íslendingar, eins og flest lönd sem við berum okkur saman við, að laða til okkar slíka fjárfestingu. Kostirnir eru ekki aðeins fjármagnið sem þannig kemur inn í hagkerfið heldur líka þekkingin, hugvitið, viðskiptatengslin, reynslan og framfarirnar sem gjarnan streyma inn í atvinnulífið með auknu samstarfi og samvinnu við alþjóðleg fyrirtæki og fjárfesta.“

Ráðherra upplýsti að erlendir fjárfestar fái aðstoð vilji þeir fjárfesta á Íslandi.

„Þess vegna hefur það löngum verið stefna okkar að auka veg erlendrar fjárfestingar. Í þingsályktun frá árinu 2012 segir að bætt samkeppnishæfni Íslands gagnvart erlendri fjárfestingu, og markaðssetning í þeim tilgangi, sé viðfangsefni sem beri að leggja aukna áherslu á. Árið 2016 var svo samþykkt þingsályktunartillaga um nýfjárfestingar þar sem skilgreindar eru sex áherslur varðandi þær. Í samræmi við þessa stefnu aðstoðar fjárfestingarsvið Íslandsstofu erlenda aðila sem hafa áhuga á að fjárfesta á Íslandi. Ferðaþjónustan er þar ekki undanskilin, enda geta ferðaþjónustutengd verkefni fallið vel að áherslum í þingsályktuninni, ekki síst þeirri áherslu að byggja skuli á styrkleikum Íslands og sérstöðu.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: