Lög ná ekki yfir þá sem svíkja eða ljúga
„Það varð milljarðatap fyrir banka og fjárfestingaraðila og fyrir sveitarfélagið okkar, sem fór verulega illa út úr þessari ömurlegu framkvæmd.“
Ásmundur Friðriksson tók þátt í þingumræðu um Sameina sílikon í Helguvík. Ásmundur á sameiginlegt með flestum, að illa hafi verið staðið að uppbyggingunni. Ásmundur sagði:
„Mér finnst líka mjög mikilvægt að hér komi fram að það er alveg sama hvað við erum með sterk lög, hvað við setjum margar reglur og hvað við erum með góða ráðherra og embættismenn í þessum stofnunum, eins og sannarlega hefur komið fram að við höfum, það ná engin lög yfir sviksemi. Það ná engin lög yfir þá sem svíkja eða ljúga. Þannig er það.“
Ásmundur er sannfærður um að erfitt er að eiga við sumt fólk:
„Það er alveg sama hvaða lög við setjum í þinginu, þeir sem hafa einbeittan brotavilja til að brjóta þau gera það og við náum aldrei að girða fyrir það. Það var það sem gerðist suður frá í mínum heimabæ. Það voru mikil vonbrigði.“
Hann rifjaði upp vonirnar, sem sannarlegar voru til staðar: „Bjartar vonir um vel launuð störf og vandaða starfsemi brugðust. Það varð milljarðatap fyrir banka og fjárfestingaraðila og fyrir sveitarfélagið okkar, sem fór verulega illa út úr þessari ömurlegu framkvæmd. Sveitarfélagið stendur uppi með stórar skuldir eftir þennan aðila og sveitarfélagið var lamað í marga mánuði vegna þessarar starfsemi og framkomu eiganda þessa félags, ekki aðeins í garð starfsmanna, heldur í garð verkalýðsfélaga og íbúa í Reykjanesbæ.“