Þingið fer að óskum þingmanna
Aldrei hafa fleiri varamenn verið kallaðir til þingstarfa en nú. Kostnaður þingsins nálgast tuttugu milljónir það sem af er ári. „Þannig að í raun fer þetta að mestu eftir óskum þingmanna sjálfra.“
Það sem af er ári hefur Alþingi borgað nærri tuttugu milljónir króna vegna varamanna þingmanna. Aldrei áður hafa fleiri varamenn verið kallaðir til þingstarfa og nú.
Helgi Bernódusson er skrifstofustjóri Alþings. Hann segir kostnað af inntöku varamanna á þessu ári, til 1. okt., vera orðinn 19,2 milljónir króna. „Það er sem sagt einn ársfjórðungur eftir. Talsvert alþjóðasamstarf er í október, m.a. för fjögurra þingmanna á allsherjarþingið, auk annars reglubundins alþjóðasamstarfs svokallaðra alþjóðanefnda.“
Hann svaraði spurningum Miðjunnar um þingmenn og varamenn þeirra.
Missa þingmenn sem kalla inn varamenn laun sín á meðan varamaður situr?
„Það er ýmist. Ef þingmaður kallar inn varamann vegna þess að hann (aðalmaðurinn) er á förum til útlanda í erindum Alþingis, ef hann er veikur, eða sambærilegt (t.d. veikindi barns) þá heldur aðalmaður þingfararkaupi og föstum greiðslum; annars missir aðalmaðurinn laun, t.d. ef ástæðan er einkaleg (frí eða þess háttar). Hin opinberu erindi erlendis verða þó að vara í fimm daga. – Í fæðingarorlofi fer þingmaður af launaskrá þingsins og færist yfir til fæðingarorlofssjóðs.“
Missa þingmenn rétti til starfskostnaðar meðan varamenn sitja í þeirra stað?
„Það fer eftir því hvort forföll eru „lögmæt“, þ.e. ef þingmaður heldur launum heldur hann líka starfskostnaði; annars falla greiðslur niður til hans.“
Ef svo er óska ég eftir að upplýsingar um greiðslur starfskostnaðar til þingmanna meðan varamenn hafa setið á þingi í þeirra stað.
„Það er nær ógerningur að taka þetta saman. Reikningum fyrir starfskostnað er skilað einu sinni í mánuði og það væri mikið fyrirtæki að fara að sortéra úr hvað fellur til meðan á dvöl erlendis t.d. stendur. Hér er auk þess ekki um verulegar fjárhæðir að ræða.“
Hvaða ástæður þurfa að vera til staðar svo þingmenn geti kallað inn varamann?
„Ég vísa til fyrra svars. Ástæðurnar eru tilgreindar í lögunum um þingfararkaup og þingfararkostnað.“
Eru þingmenn einráðir um hvort þeir kalli inn varamenn?
„Í prinsippinu ekki; það er Alþingi sem veitir leyfið; en það hefur aldrei reynt á slíkt, a.m.k. ekki í seinni tíð. Þannig að í raun fer þetta að mestu eftir óskum þingmanna sjálfra.“
Og eins, hversu lengi varamenn sitja á þingi í þeirra stað?
„Varamenn sitja að lágmarki eina viku, en stundum auðvitað (einkum í veikindum) lengur. Þessi þingseta getur verið styttri (allt niður í einn dag) ef þingi er frestað, t.d. að vori eða fyrir jól.“