Fyrrverandi landbúnaðarráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, er alls ekki sáttur við núverandi ráðherra, Kristján Þór Júlíusson.
Gunnar Bragi segir: „Á sama tíma og kúariða greinist í Skotlandi og fréttir berast frá Evrópusambandinu um að til standi að draga eigi úr eftirliti með sjúkdómum í kjúklingi þá lýsir landbúnaðarráðherra því yfir að ekkert hrófli við EES-samningnum. Á sama tíma hefur ráðherrann ekki hugmynd um hvernig hann ætlar að verja íslenska neytendur eða íslenskan landbúnað fyrir sjúkdómum sem berast munu til landsins með hráu kjöti eða þá hvernig hann ætlar að berjast gegn auknu sýklalyfjaónæmi sem ógnar heilsu manna. Kannski treystir hann á að Félag atvinnurekenda setji neytendur fyrst og svo gróðann.“
Ljóst má vera að Gunnari Braga er mikil alvara og telur vá fyrir dyrum borði Íslendingar sama mat á nágrannaþjóðirnar.
Ráðherra neitar að mæta á fund
Hann heldur áfram: „Ótakmörkuð ást ráðherrans á EES-samningnum er ekki það eina undarlega við embættisfærslur hans undanfarið. Nýlega fréttist að hann hefði lagt niður landbúnaðardeildina í ráðuneytinu og fært verkefnin á alþjóðasvið. Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins hefur óskað eftir því að ráðherra mæti á fund Atvinnuveganefndar til að skýra þessa ákvörðun. Ráðherrann mætir hins vegar ekki og lætur þau boð berast að hann ætli að ræða málið annars staðar. Ráðherranum ber að mæta svo alþingi geti rækt eftirlitshlutverk sitt. Hann getur tafið það að mæta með málefnalegum ástæðum en ekki bara af því bara.“
Hafa beðið lengi svara ráðherrans
Og svo þetta: „Tveir hópar bænda, sauðfjár- og loðdýra-, hafa beðið eftir viðbrögðum frá ráðherra við erindum þeirra og beðið lengi. Báðir þessir hópar skipta miklu fyrir þjóðina hvor á sinn hátt. Ég þekki ekki til neinnar þjóðar sem vill ekki eiga öflugan landbúnað.“