Katrín Jakobsdóttir og Guðmundur Ingi Kristinsson deildu nokkuð um starfsgetumat á Alþingi. Guðmundur byrjaði, en hann er ekki sáttur við hugmyndina um starfsgetumat.
Á móti: „Ef þau geta ætla þau að troða starfsgetumati ofan í kokið á öryrkjum, starfsgetumati sem þeir hafa ekki fengið að koma neitt að og eiga bara að kyngja. Athugið það að margir, flestir sem fá krónu á móti krónu skerðingu, munu aldrei fara í starfsgetumat. Þetta starfsgetumat kemur þeim ekkert við.
Starfsgetumatið er alveg sérútgáfa. Það voru sérfræðingar sem komu að því. Öryrkjar fengu ekki að koma nálægt því. Hvar er þá allt tal um að tala ekki um okkur án okkar? Það var ekki virt. Svo eru menn alveg steinhissa á að Öryrkjabandalagið neiti að kyngja þessu. Auðvitað neitar það; það er ólíðandi að nota fjárhagslega svipu, krónu á móti krónu, til að þvinga fólk í eitthvað sem það vill ekki.“
Sem fyrr segir er Katrín forsætisráðherra meðmælt starfsgetumati:
Með: „Að sjálfsögðu skiptir máli að það kerfi sem við byggjum upp stuðli að samfélagslegri þátttöku fólks í öllum þjóðfélagshópum og tryggi framfærslu, en það á ekki að snúast að mínu viti um að troða neinu ofan í kokið á neinum.
Hljótum við ekki að spyrja okkur að því af hverju vinnumarkaður okkar, bæði sá opinberi og sá almenni, hefur þróast með þeim hætti að mun lægra hlutfall fatlaðs fólks er á vinnumarkaði hér en annars staðar?
Viljum við breyta því? Já, ég vil gjarnan sjá kerfi sem stuðlar að því. Þar með á ekki að svipta fólk framfærslu sinni. Það snýst ekki um það.“