- Advertisement -

ÖMURLEGT AÐ HORFA UPP Á FÓLK STRITA OG PÚLA OG EIGA EKKERT EFTIR NEMA YFIRDRÁTTARHEIMILD

Viðtal Gunnar Smári: „Ég var búin að bíða eftir þessari íbúð í tíu ár. Tíu ár er langur tími á leigumarkaðnum. Við erum búin að flytja aftur og aftur, oft á milli hverfa, búnar að tapa tryggingarfénu oftar en einu sinni og lent á ömurlegum leigusölum,“ segir Pálína Sjöfn Þórarinsdóttir, einstæð tveggja barna móðir sem fékk loks stóra og góða íbúð við Kleppsveginn hjá Félagsbústöðum í fyrra. „Ég ætla aldrei að flytja úr þessari íbúð,“ segir Pála. „Öruggt húsnæði skiptir okkur öllu, það er einn, tveir og tuttugu. Við erum enn að venjast því að þurfa kannski ekki flytja í næsta mánuði, erum að vakna til lífsins.“

Pála býr með dætrum sínum tveimur, Hafrúnu Fíu tólf ára og Ronju Auði fimmtán ára. Hún er einstæð. „Ég hef alltaf verið einstæð. Frá því Ronja fæddist hef ég bara verið stutt í sambúð. Mér helst illa á karlmönnum,“ segir Pála. Og hlær.

Og hún var ung þegar hún varð einstæð móðir. „Við eignumst flestar börn ungar í móðurættinni,“ segir hún. „Og það var ekkert auðvelt. Einstæðir foreldrar fá bara sex mánaða fæðingarorlof svo Ronja var komin til dagmömmu sjö mánaða. Ég reyndi fyrst að klára stúdentinn, en það gekk ekki. Við þurftum meiri pening. Ég fór því að vinna út um allt, það sem einstæðar mæður geta unnið. Við getum ekki unnið vaktavinnu og ekki unnið fram eftir. Við erum því mikið í láglaunastörfum. Ég hef síðan gert nokkrar atlögur að skólum, að klára stúdentspróf, fór í tækniteiknun og nú síðast í trésmíði. Draumurinn er að klára húsgagnasmíði og bólstrarann.“

Pála er barn barna, foreldrar hennar voru ungir þegar hún fæddist, 18 og 19 ára. Þau skyldu og Pála ólst upp með móður sinni og stúpa á Hesti í Andakílshreppi. Hún er því sveitastúlka. Og undi vel í sveitinni, allt þar til hún hún komst á unglingsár. Þá fannst henni allt í einu hallærislegt að búa í sveit og langaði í stærri heim. Hún flutti að heiman sextán ára, fór fyrst í skóla en svo að vinna, aftur í skóla og aftur að vinna. „Ég hafði ekki metnað til neins sérstaks, vildi bara lifa og leika mér,“ segir Pála. Og svo var allt í einu komið barn.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Lífið var hark. „Frá því ég fæddist er ég búin að búa á 35 stöðum,“ segir Pála. „Ég ákvað ung að sjá um mig sjálf og bjó hér og þar þegar ég var ein. Það truflaði mig ekki neitt. En eftir að Ronja kom höfðum við þörf fyrir öryggi. Ég var í sambúð þegar Hafrún Fía fæddist, en þegar ég og barnsfaðir minn slitum samvistum var ljóst að ég þyrfti að gera eitthvað róttækt. Ég sótti því um félagslega íbúð hjá Reykjavík, sem er eina von einstæðrar móður í láglaunastörfum um húsnæðisöryggi. Ég fékk svo íbúð tíu árum og tólf íbúðum seinna.“

Þegar Pála sótti um hjá borginni var Hafrún Fía eins árs og Ronja fjögurra ára. Þegar þær mæðgur fengu loks íbúð voru stelpurnar orðnar ellefu og fjórtán ára. Sú yngri er búin að vera í fjórum grunnskólum, sú eldri í sex. Heil barnæska leið á biðlista. Hvers vegna tók þetta svona langan tíma? „ Ég held ég sé ekki nógu ýtin, ekki nógu dugleg að grenja,“ segir Pála. „Fólk þarf að setja sig í þann gír þegar það biður um hjálp. Ég hef hins vegar aldrei verið góð í því.“

Þegar Pála fékk loks íbúð segir hún að allt hafi verið komið í kaldakol. Þær mæðgur höfðu flutt til Frakklands, búið þar í indælu þorpi ásamt frönskum manni sem Pála kynntist. En Ronja var á erfiðum aldri til að flytja milli landa, tólf ára á mörkum þess að vera barn og unglingur, og undi sér ekki í Frakklandi. Þær mæðgur fluttu því aftur til Ísland, fyrst til Patreksfjarðar en svo aftur í bæinn. Þegar þarna var komið var þessi eilífi flutningur og rótleysi, hálf vonlaus leit eftir einhverju skjóli, farinn að grafa undan þeim. Pála missti heilsuna, var bugað af kvíða af fjárhagsáhyggjum og áhyggjum af velferð dætra sinna. Staða þeirra var orðin svo slæm að Pála fékk úthlutað félagslegri íbúð án þess að þurfa að grenja. Það var augljóst öllum að húsnæðisöryggi var þeim mæðgum lífsnauðsynlegt.

Og Pála lýsir því sem þessi íbúð sé forsenda þess að þær mæðgur geti náð sér, að þær geti byggt upp líf og unnið úr afleiðingunum af óöryggi og rótleysi undanfarinna ára. Pála segist aldrei ætla að flytja. Þessi íbúð við Kleppsveginn er grunnurinn að framtíð hennar og dætra hennar.

Eftir ár í endurhæfingu er Pála nú kominn í draumastarf, vinnur hjá húsgagnaframleiðenda við að smíða stóla. „Ég vil vinna með höndunum,“ segir hún. „Ég skil ekki fólk sem getur setið við skrifborð allan daginn. Ég er sveitastelpa, vil sjá eitthvað eftir daginn, eitthvað sem ég get bent á.

Örugt húsnæði er grunnurinn og góð vinna er styrkjandi en Pála þakkar pólitísku starfi hvað hún hefur náð sér vel og getur betur átt við aðstæður sínar og dætra sinna. „Ég fór í framboð fyrir sósíalista í borginni í vor og það kveikti í mér neista, sem ég vissi ekki að ég byggi yfir. Eða var búin að gleyma. Og ég hef elt þennan neista því þetta gefur mér tilgang.“

Pála var kjörin í stjórn Samtaka leigjenda þegar þau samtök voru endurnýjuð fyrir skömmu og tók svo þátt í að stofna Félag leigjenda hjá Félagsbústöðum, þar sem hún var kosin formaður. Og hún er líka í framboði til stjórnar Neytendasamtakanna, vill verða þar tengiliður þeirra samtaka yfir í samtök leigjenda.

Félags leigjenda hjá Félagsbústöðum hefur ekki áður verið til, sá stóri hópur sem leigir félagslegt húsnæði hjá Reykjavíkurborg hefur ekki áður átt sér félag. Á fundum félagsins hefur komið fram að stofnun félagsins er löngu tímabær, það er mikil óánægja með fyrirtækið meðal leigjenda. „Það er ekki nema ár síðan ég fékk íbúð, svo ég hef ekki mikla reynslu af Félagsbústöðum,“ segir Pála, „og ég varð bæði hissa og reið þegar ég heyrði fólk lýsa sinni reynslu afi sinnuleysi, óréttlæti og virðingarleysi. Þessu ætlum við að breyta með því að krefjast þess að leigjendur komi að mótun stefnu og starfsemi Félagsbústaða. Það mun engin berjast fyrir okkar rétti nema við sjálf.“

Pála segist ekki skilja þessi kerfi sem kúgi fólk, vísi þeim á hólf, flokki það og hætti að líta á fólk sem manneskjur. „Þetta er svo samfélagslega dýrt,“ segir hún. „Við erum að búa til samfélagsmein. Það er ömurlegt að horfa upp á fólkið sitt strita og púla og svo á það ekkert eftir nema yfirdráttarheimild. Fólk er plagað af fjárhagsáhyggjum alla daga. Og það er ekkert verra en fjárhagsáhyggjur; þú gefur börnunum fyrst að borða og svo þarftu að glíma við hungrið ofan á áhyggjurnar. Það eru margar konur sem þekkja þetta, lifa svona alla daga. Ég veit ekki hvort annað fólk skilur hvað þetta er slítandi. Það erum við sem hugsum um börnum og það hvílir meira á okkur en við fáum hins vegar lægri laun, sitjum gjarnan fastar í láglaunastörfunum. Ofan á þetta bætist síðan ömurlegur húsnæðismarkaður, endalaust óöryggi, látlausir flutningar. Það er ekki að furða þótt margar konur missi heilsuna eða vitið. Ég skil ekki tilganginn með þessu kerfi. Við verðum að breyta því,“ segir Pála.

Á undanförnum vikum hafa leigjendur sagt sögu sína undir yfirskriftinni#leigjendurrísaupp. Samtök leigjenda á Íslandi hvetja alla leigjendur og þau sem vilja styðja baráttu þeirra að gangið í samtökin hér:http://leigjendasamtokin.is/#

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: