Þessi frétt fer í kennslubækurnar
„Þannig hefur íslenska krónan fallið svo ört að nú þarf 14,5 íslenskar til að kaupa eina norska en þurfti um 13 í vor og sumar og fyrst í haust.“
Gylfi Magnússon hagfræðingur skrifar: Já, sæll! Þessi frétt fer í kennslubækurnar! Betri dæmi um ranga túlkun á tölum er erfitt að finna. Fyrirsögnin er yndisleg! Í fyrsta lagi sýnir þessi litla verðkönnun að verðið er enn umtalsvert hærra á Íslandi en í nágrannalöndunum. Meðalverðið á vörunum fjórum er 7,2% hærra hérlendis en í hinum löndunum fjórum. Í öðru lagi þarf að hafa í huga að krónan íslenska (blessunin) hefur hríðfallið undanfarnar vikur.
Vegna þess að vörur þeirra félaga, Hennesar og Máritzar, eru verðmerktar áður en þær fara út af miðlægum lager (ef ekki í verksmiðjunum) og verðinu er svo ekki breytt í búðunum nema e.t.v. á útsölum þá er hér verið að selja lager á „gamla verðinu“ sem er hugtak sem miðaldra eða eldri Íslendingar þekkja vel.
Þannig hefur íslenska krónan fallið svo ört að nú þarf 14,5 íslenskar til að kaupa eina norska en þurfti um 13 í vor og sumar og fyrst í haust. Það er rétt ríflega 10% veiking þeirrar íslensku gagnvart nágrannakrónunni. Þrátt fyrir þetta (!) er verðið í Smáralind og Kringlunni hærra en í Osló. Verðstefna H&M á Íslandi virðist því vera að hafa á að giska 15-20% hærra verð hér en í nágrannalöndunum ef verðin sem gilda núna hafa verið ákveðin í sumar eða snemma í haust. Það er þó framför (!) og ber að þakka það. Þegar þeir félagar opnuðu hér blöstu við verð sem voru allt að 50% hærri en í Noregi (þ.e. norska krónan var á 20 íslenskar á verðmiðunum í H&M en u.þ.b. 13 í banka). Set mynd af því hér fyrir neðan.
Sótt á Facebooksíðu Gylfa Magnússonar.