Ánægður í vinnunni og heppinn með leigusala
Texti og mynd: Alda Lóa: „Ég er mjög ánægður með starf mitt hjá Steypustöðinni, mikil fjölbreytni og ég hef himininn fyrir ofan mig. Ég þarf helst að vera utandyra annars finnst mér ég ekki vera frjáls maður.
Ég kom til Íslands rétt fyrir hrun og réði mig í sælgætisverksmiðju þar sem ég starfaði í fimm ár. Verksmiðjustarfið var mjög einhæf, ég hrærði karamellu allan liðlangan daginn, sveittur í einangrunarbúning sem átti að vernda mig fyrir karamellunni sem slettist á mig. Við hjónin unnum bæði í verksmiðjunni í dagvinnu og þrifum fyrir ISS á kvöldin. Þá var farið beint úr verksmiðjunni í leikskóla sem við þrifum og þaðan í grunnskóla sem var líka þrifin fram að síðustu strætóferð sem við tókum heim. Þegar við komum heim áttum við eftir að elda og sinna okkur og stundum var ekki sofið meira en tvo þrjá tíma á nóttu og þá vorum við aftur mætt í verksmiðjuna að morgni. Svona leið eitt ár og við vorum orðin eins og uppvakningar.
Við hættum hjá ISS en á þessum tíma eignuðumst við tvær dætur sem eru sex og átta ár í dag. Konan mín fór í barneignarfrí en ég hélt áfram í verksmiðjunni, ég þorði ekki að skipta um starf á meðan fjölskyldan stækkaði. Ég lagði mig fram og bað um launahækkun en því var hafnað í tvígang og eftir fimm ár í karamellunni ákvað ég að söðla um og sótti um starf á bifvélaverkstæði.
Ég er ekki lærður bifvélavirki, ég lærði kokkinn í Póllandi og er bara áhugamaður um bíla. En nóttina áður en ég réði mig á verkstæðið lærði ég af Youtupe myndbandi að sjóða saman púströr og hljóðkúta og fékk starfið. Þetta gekk ágætlega á verkstæðinu og ég var þar í tvö ár en ég þráði að vera úti og þegar ég sá auglýst eftir manni á steypubíl þá sló ég til og sótti um.
Ég hef verið hérna í tvö ár og uni mér vel, en ég man hvað ég var stressaður í byrjun, ég reykti 35 pakka af sígarettum þennan mánuð sem ég var að læra á steypudæluna. Skrýtið að hugsa til þess af því núna, gæti ég dælt með lokuð augun. Konan mín er ennþá að vinna í sælgætisverksmiðjuni, hún sækir börnin í leikskólann og skólann eftir vinnu.
Ég hef verið heppin í leigumálum, leigt hjá sama manninum frá byrjun og borgað lága leigu. Leigusalinn minn, íslenskur eldri borgari hefur með tímanum orðið fjölskylduvinur okkar, hann hefur meir að segja keyrt til Póllands og heimsótt foreldra mína.“
Mariusz Jurkowski er dælumaður á steypubíl og félagi í Eflingu.