Mikill samdráttur í heilbrigðismálum
- þrátt fyrir efnahagsstöðuna er þrengt illilega að mörgum heilbrigðisstofnunum. Verkin sýna merkin og ríkisstjórnarflokkarnir tapa miklu fylgi.
„…fjárlög ársins 2018 og þau fjárlög sem nú hafa verið lögð fram fyrir árið 2019 fela í sér niðurskurð á núverandi rekstri nánast allra hjúkrunarheimila landsins sem og rekstri margra annarra veitenda heilbrigðisþjónustu eins og SÁÁ og Sjálfsbjargarheimilisins. Frumvarpið felur einnig í sér niðurskurð hjá rekstraraðilum dagdvalarþjónustu í landinu, hvort sem um er að ræða almennar dagdvalir eða sérhæfðar dagdvalir fyrir sérstaka sjúklingahópa eins og alzheimer-sjúklinga. Rekstrargrundvöllur allra þessa aðila var skertur í fyrra með fjárlögum ársins 2018 og samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi ársins 2019 á að halda niðurskurðinum áfram.“
Þetta skrifar Eybjörg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, í Mogga dagsins. Hún bendir skýrt á hversu alvarleg staðan er.
Boðaður niðurskurður
„Ekki eru til staðar neinar forsendur til að skera niður í rekstri umræddra aðila. Það liggur fyrir að það vantar 30% upp á núverandi daggjöld hjúkrunarheimila til að þau geti staðið undir þeim lágmarksviðmiðum sem Embætti landlæknis hefur sett fram um mönnun hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og annarra starfsmanna á hjúkrunarheimilum. Inn á þetta atriði var beinlínis komið í núverandi stjórnarsáttmála. Þar segir orðrétt: „Einnig verður hugað að því að styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila.“ Erfitt er að sjá hvernig boðaður niðurskurður á rekstrargrunni hjúkrunarheimila samrýmist þessum orðum.“
Ríkisstjórnin viljalaus
Eybjörg bendir á viljaleysi ríkisstjórnarinnar:
„Í byrjun árs 2018 hófust viðræður milli Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Sjúkratrygginga Íslands um gerð rammasamnings fyrir þjónustu í dagdvalarrýmum. Í viðræðunum, sem reyndar liggja nú í dvala, hefur komið fram að það vantar að lágmarki 30% hækkun á núverandi daggjaldi til að rekstur almennra dagdvalarrýma gangi upp. Þrátt fyrir vitneskju stjórnvalda um þessa staðreynd á að halda viðvarandi niðurskurði áfram á núverandi þjónustu samkvæmt því sem ríkisstjórnin hefur kynnt í framlögðum fjárlögum.“
Dugar ekki fyrir launum
„Hjá SÁÁ hefur verið reiknað að framlag ríkisins til meðferðarsviðs SÁÁ sé í dag 278 millj. kr. lægra en árið 2009 á föstu verðlagi. Framlagið dugar ekki fyrir launakostnaði samtakanna þrátt fyrir að stöðugildum á meðferðarsviði SÁÁ hafi fækkað um tæplega ellefu frá árinu 2000. Á árinu 2018 hafa á bilinu 580-590 manns verið að staðaldri á biðlista hjá Sjúkrahúsinu Vogi. Þrátt fyrir þennan fjölda hyggst ríkið halda áfram niðurskurði í rekstri SÁÁ ef marka má fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Svipaða sögu má segja um Sjálfsbjargarheimilið, sem hefur þurft að reiða sig á stuðning frá þriðja aðila til að endar nái saman í rekstrinum á yfirstandandi ári. Fjárveiting til Krabbameinsfélags Íslands vegna skimunar fyrir krabbameinum var enn fremur lækkuð án útskýringar í fjárlögum ársins 2018. Sú lækkun er ekki leiðrétt í frumvarpi til fjárlaga 2019,“ skrifar Eybjörg Hauksdóttir.
Koldimmt fram undan
Að lokum þetta úr fínni grein Eybjargar:
„Ekki er að sjá annað af fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar en að allir þessir rekstraraðilar, sem nefndir eru hér að ofan og lentu í niðurskurði á árinu 2018, eigi að gera það aftur árið 2019 og enn og aftur árin 2020 og 2021. Niðurskurðurinn er um hálft prósent á hverju ári og um 2% sum árin hjá sumum rekstraraðilanna. Þessi niðurskurður er fyrir utan þær nýju kröfur sem ítrekað eru lagðar á rekstraraðilana án þess að fjármagn fylgi til að standa undir þeim. Slíkar aðgerðir fela auðvitað í sér frekari niðurskurð á þeirri þjónustu sem fyrir er. Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu skora á ríkisstjórnina, heilbrigðisráðherra og þingmenn alla að stöðva þennan viðvarandi niðurskurð og hlúa þess í stað betur að heilbrigðisþjónustu landsmanna.“
Ríkisstjórnin kolfallin
Gunnar Smári hefur reiknað fylgi flokkanna og afleiðingarnar færi kosningar eins og nýjustu skoðanakannanir sýna. „Niðurstaða upp úr kjörkössum myndi leiða til þess að ríkisstjórnin er kolfallin; Sjálfstæðisflokkurinn fengi 14 þingmenn (-2), VG 7 (-4) og Framsókn 6 (-2). Samtals 8 stjórnarþingmenn fallnir.
Samfylking fengi 11 þingmenn (+4), Píratar 8 (+2), Miðflokkurinn 8 (+1), Viðreisn 5 (+1) og Flokkur fólksins 4 (+/-0).
Það er erfitt að sjá nokkra ríkisstjórn í þessum spilum. Ætli DBMF með eins manns meirihluta sé ekki líklegust. Eða fjórflokkurinn, DBSV, með 38 þingmenn. Sem er athygli vert, að þeir stofnanaflokkar njóti samanlagt ekki meira fylgis en 57%, sú stofnun er ekki að fara að jafna sig á Hruninu úr þessu.“