Falsfrétt á vef Alþingis
- segir Guðmundur Ingi Kristinsson þingmaður. Er það ekki mjög alvarlegt mál að ekki sé rétt og satt sagt frá á vef Alþingis?
„Það er eiginlega með trega og í forundrun að ég kem hingað upp til að benda þingmönnum á að á vef Alþingis er falsfrétt. Er það ekki mjög alvarlegt mál að ekki sé rétt og satt sagt frá á vef Alþingis? Ég hef komið áður upp í þennan stól og bent á að rangar fréttir væru á vef Alþingis en það var ekki leiðrétt. Sú frétt stendur enn óhögguð, að það sé bara einn þingmaður í velferðarnefnd Norðurlandaráðs. Við vorum tvö þar; Steinunn Þóra Árnadóttir var með mér í þeirri nefnd. En það stendur skýrum stöfum á vef Alþingis að þar hafi bara verið einn þingmaður.“
Þannig talaði Guðmundur Ingi Kristinsson, Flokki fólksins, á Alþingi í gær. Honum er mikið niðri fyrir.
Er bara eitt hótel í Nuuk?
„Það stendur líka skýrum stöfum á vef Alþingis að það sé einungis eitt hótel í Nuuk. Það stendur líka að ég hafi verið sá eini sem fór á undan á fundinn þar, en það gerði líka starfsmaður þingsins. Hvers vegna í ósköpunum er verið að hafa rangt eftir? Ef skoðaðar eru upplýsingar á nefndasviði kemur sannleikurinn í ljós. Þar stendur það skýrum stöfum: Norræn velferðarnefnd, tveir.“
Peningabruðl
„Er þetta vegna þess að ég er að benda á að verið er að bruðla með óþarflega mikið fé í erlendu nefndastarfi? Við eigum að skoða allt. Það er talað um takmarkað fé þegar talað er um eldri borgara og öryrkja, takmarkað fé ríkissjóðs. Á sama tíma berast upplýsingar um það í Mannlífi að yfirmaður Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, Norðmaður, eyddi 54 millj. kr. í ferðalög. Á 529 af síðustu 668 dögum var hann á ferðalagi. Hugsið ykkur mengunina. Við erum að tala um Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna.“
Gert lítið úr því sem segi
Ef við skoðum ekki svona hluti, ég er ekki að segja að þetta sé svo slæmt hjá okkur, erum við að bruðla með almannafé. Okkur ber skylda til þess. Hvað á ég að gera? Á ég að senda þeim fyrirspurn til þess að allt sé rétt sett upp á vef Alþingis? Hvernig get ég fengið það leiðrétt á vef Alþingis þar sem verið er að reyna að gera lítið úr því sem ég segi?