Sjálfstæðisflokki hefur mistekist
- að endurheimta fyrri styrk, segir Óli Björn. „Í hugum margra stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins hefur virðing fyrir opinberu fé farið þverrandi.“
Óli Björn skrifar að venju í Moggann á miðvikudegi. Hluti greinarinnar fer í sjálfsgagnrýni á Sjálfstæðisflokkinn og hvað valdi al flokkurinn er svo langt frá fyrri styrk.
„En þrátt fyrir að í flestu hafi gengið vel hefur Sjálfstæðisflokknum ekki tekist að endurheimta fyrri styrk. Við sem skipum sveit kjörinna fulltrúa flokksins verðum að viðurkenna að okkur hefur ekki tekist að endurnýja sambandið við marga kjósendur,“ skrifar Óli Björn.
„Eftirlitsstofnanirnar lifa góðu lífi“
„Fyrir því liggja margvíslegar ástæður en í samtölum við gamla samherja hef ég skynjað hversu vonsviknir margir eru vegna þess hve seint gengur að hrinda stefnumálum í framkvæmd. Ríkisútgjöldin halda áfram að hækka ár eftir ár. Í hugum margra stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins hefur virðing fyrir opinberu fé farið þverrandi. Eftirlitsstofnanirnar lifa góðu lífi og enn er stór hluti efnahagslífsins án samkeppni. Ríkisfyrirtæki hafa í auknum mæli lagt til atlögu við einkafyrirtæki. Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu er í vörn. Séreignarstefnan – einn hornsteinn hugsjóna Sjálfstæðisflokksins – er líkt og afgangsstærð í dægurþrasi stjórnmálanna,“ má lesa í grein Óla Björns í Mogganum.
Vantar sjálfstraust
Hann vitnar í grein sem hann sjálfur skrifaði og birti í Þjóðmálum:
„Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því ég sá mig knúinn til að skrifa greinarnar tvær í Þjóðmál. Þá taldi ég nauðsynlegt að huga að rótum hugmyndafræðinnar en um leið yrðu kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að öðlast sjálfstraust í málflutningi og baráttu. Almenningur verði að skynja að þeir tali frá hjartanu með frelsi einstaklingsins að leiðarljósi. Að ástríða og sannfæring sé að baki orðum og athöfnum.“
Af samtölum síðustu misseri við fólk um allt land – bændur, útgerðarmenn, iðnaðarmenn, sjálfstæða atvinnurekendur, kennara og lækna – finn ég að margir sakna þess að við sem höfum tekið að okkur að berjast fyrir hugsjónum sjálfstæðisstefnunnar á þingi, skulum ekki tala af meiri ástríðu fyrir því sem við teljum mikilvægast.“
Talar ekki við alla
Ljóst er að Óli Björn hefur ekki talað við, hið minnsta ekki hlustað, á öryrkja og aðra sem hafa það hvað verst. Því á einum stað í Moggagreininni skrifar hann: „Kaupmáttur hefur aldrei verið meiri, atvinnuleysi lítið og verðlag hefur verið stöðugt. Lífskjör á Íslandi eru með þeim bestu sem þekkjast í heiminum.“