Fálkinn og Svandís; harkan eykst
„Mörgum blöskrar sem von er framganga heilbrigðisráðherra gagnvart einkarekstri í heilbrigðiskerfinu.“ „Kjölfestan verður að vera traust og öflugt heilbrigðiskerfi okkar allra, sem við eigum sjálf og þjóðin hefur kallað eftir.“
Mogginn er vígvöllurinn í átökum Fálkans (Sjálfstæðisflokksins) og Vg, og þá einkum Svandísar Svavarsdóttur. Vopnahlé er ekki sjáanlegt. Eflaust er beðið eftir inngripum Bjarna Ben og Katrínar. Meðan þau gera ekkert aukast átökin, sem hæglega geta orðið banabiti ríkisstjórnarinnar.
Davíð Oddsson hefur blandað sér í átökin við Svandísi og nýtir sér leiðara dagsins til þess.
„Mörgum blöskrar sem von er framganga heilbrigðisráðherra gagnvart einkarekstri í heilbrigðiskerfinu,“ skrifar hann.
Davíð vitnar til viðtals við Kristján Guðmundsson, formann samninganefndar Læknafélags Reykjavíkur. „Þetta er grafalvarlegt mál og það er líka alvarlegt að ráðherra sinnir því ekki að svara sérfræðilæknum, skrifar Davíð og vitnar svo til Kristáns. „Hún verður þá að minnsta kosti að segja að hún ætli ekki að semja við okkur. Þetta er auðvitað dónaskapur og setur lækna í ómögulega stöðu. Sjúklingar vita ekki hvað þeir eiga að borga á næsta ári og læknar eiga örðugt með að skipuleggja aðgerðir, eftirlit og starfsemina almennt.“
Vg ekki ein í ríkisstjórninni
Næst er öllum léttavopnum sleppt og gripið til þyngra vopna:
„Þó að ráðherra úr röðum vinstri-grænna fari með heilbrigðismálin er sá flokkur ekki einn í ríkisstjórn og í stefnulýsingu ríkisstjórnarinnar er ekki að finna áform um að útrýma einkarekstri úr heilbrigðiskerfinu, enda hefði slíkt án efa aldrei náð í gegn. Þess vegna hefur komið á óvart hve langt heilbrigðisráðherra hefur getað gengið, en grein þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins, þeirra Jóns Gunnarssonar, Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur og Brynjars Níelssonar, hér í blaðinu um helgina, gefur vonir um að nú verði spyrnt við fótum.“
Til að þjóna kreddum og fordómum
Svandís hefur snert, jafnvel kramið, hjarta Fálkans:
„Þremenningarnir gagnrýna stefnu ráðherra sem þeim virðist vera „að auka starfsemi opinberrar heilbrigðisþjónustu og á sama tíma draga úr framlagi sjálfstætt starfandi sérfræðinga og heilbrigðisstofnana. Heilbrigðiskerfið þarf að vera fyrir sjúklinga og markmiðið á að vera að veita sem besta þjónustu fyrir það fjármagn sem varið er til málaflokksins. Besta leiðin til að ná þessu markmiði er að nýta kosti einkaframtaksins til að bæta þjónustu og vinna á biðlistum, en ekki að auka umsvif ríkisins til að þjóna kreddum og fordómum.“
Heilbrigðiskerfi sem við eigum sjálf
Í leiðaraopnu Moggans er einnig grein eftir Svandísi. Hún talar allt öðru máli en Davíð og Fálkinn:
„Nú er unnið að undirbúningi nýs samkomulags við sérfræðilækna í velferðarráðuneytinu. Miðað er við að það samkomulag uppfylli ákveðin skilyrði, sem eru í samræmi við ráðleggingar og tilmæli Ríkisendurskoðunar og ábendingar sem fram komu í skýrslu McKinsey. Fundur með sérgreinalæknum er ráðgerður í næstu viku.
Þótt efnahagur þjóðarinnar fari nú batnandi erum við enn að vinna úr hruninu á margan hátt. Með því að setja fram vandaða heilbrigðisstefnu, tryggja öfluga þjónustu opinberra sjúkrahúsa, efla göngudeildir og treysta heilsugæsluna um allt land, en líka með því að skýra samninga um kaup á heilbrigðisþjónustu sem ekki verður veitt af opinberum aðilum, þar sem markmið samninganna, gæðakröfur og ætlaður árangur af þeim liggja ljós fyrir, nálgumst við heildstæðara kerfi og markvissari og betri þjónustu fyrir alla.
Kjölfestan verður að vera traust og öflugt heilbrigðiskerfi okkar allra, sem við eigum sjálf og þjóðin hefur kallað eftir.“
Svandís hefur þingflokk Vg að baki sér.
Kolbeinn Óttarsson Proppé segir í Fréttablaðinu: „Svandís er að bregðast skýrum vilja almennings og athugasemdum virtra aðila með því að stefna að kerfi þar sem heildarsýn ríkir. Ég styð hana í því þarfa verki.“