„Þingmenn upplifa nú nánast daglega manngerða jarðskjálfta og þrumur vegna framkvæmda hér í miðbænum,“ sagði Sigmundur Davíð á Alþingi í dag.
„Og þó að þingmenn séu almennt vanir hávaða og skjálftum þá gefur þetta okkur smáinnsýn, þótt ekki væri nema dálitla innsýn í það sem sjúklingar og starfsfólk Landspítalans mun upplifa næstu árin að minnsta kosti ef fram heldur sem horfir með framkvæmdir þar. En ég ætla ekki að ræða meira um Landspítalann að sinni heldur um þessar framkvæmdir í miðbænum.“
Verið er að byggja gríðarleg ferlíki
„Hér rétt utan við húsið er verið að byggja risastórt hótel, nánast upp að þinginu og er óskiljanlegt að þingið skuli láta þetta viðgangast. Á næsta horni er verið að byggja yfir minjar um hugsanlega landnámið, einhvern elsta skála sem hefur fundist á Íslandi og á enn einu horninu hér bara í Kvosinni er verið að byggja gríðarleg ferlíki, stóra svarta kassa sem gera nú ósköp lítið til þess að bæta ásýnd miðbæjarins í Reykjavík.“
Alþingi byggi nokkra svarta kassa
„Af þeim sökum er þeim mun mikilvægara að Alþingi reyni að nota þær leiðir sem þessi stofnun hefur þó til þess að sporna við og taki ekki þátt í þessari þróun. Því vil ég hvetja Alþingi, og treysti því að hæstvirtur forseti, muni aðstoða mig við að koma þeim skilaboðum áleiðis, til þess að endurskoða áform um byggingu nokkurra stórra svartra kassa undir starfsemi þingsins, hér á horninu fyrir utan gluggann. Hægt er að endurskoða þessi áform með þeim hætti að þau verði til þess fallin að bæta ásýnd Alþingis og miðbæjarins um leið.“