Það virðist vera happafengur fyrir útgerðina að Kristján Þór Júlíusson sitji í stóli sjávarútvegsráðherra. Staksteinar Moggans minnast óbeint á þetta í dag þar sem vitnað er til Kristjáns Þórs og Heiðrúnar Lind Marteinsdóttur, sem er framkvæmdastjóri útgerðarfyrirtækjanna.
„Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra hefur boðað frumvarp í haust um veiðigjöld þar sem „kerfið í núverandi mynd endurspegli ekki nægilega vel afkomu greinarinnar“, eins og ráðherrann orðaði það í viðtali við Morgunblaðið,“ segir í Staksteinum.
Staksteinar segja að Kristján Þór segja „….réttilega þann galla á núverandi kerfi að álagning sé fjarri tekjum í tíma. Þetta þýðir að þegar gjöldin eru greidd getur rekstrarumhverfi greinarinnar verið allt annað en þegar fiskurinn var veiddur og seldur.
Þetta kemur sér að sjálfsögðu illa eins og dæmin sanna, en ekki er síður til að valda erfiðleikum hve gríðarlega há veiðigjöldin eru orðin.“
Höfundur Staksteina og ráðherrann eru á einu máli að ekki sé hægt að ætlast til þess af útgerðinni að leggja fyrir vitandi vits að gjalddagi sé ekki kominn. Það er lagt á lífeyrisþega sem eru hiklaust hýrudregnir hafi þeir fengið ogfreitt frá Tryggingastofnun.
Jæja, hvaða tilvitnanir finnur Mogginn í framkvæmdastjóra útgerðanna:
„Í samtali við Morgunblaðið benti Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, til dæmis á að sumar tegundir væru ekki fullnýttar og stór þáttur í því væri hátt veiðigjald. „Þegar gjaldið er orðið þannig að það borgar sig ekki að sækja og gera virði úr einstökum tegundum, þá hefur augljóslega verið gengið of langt,“ sagði hún.“
Þetta er ekki allt, alls ekki:
„Heiðrún Lind benti á að endurskoða þyrfti þær ákvarðanir sem teknar hefðu verið um gjaldtöku í sjávarútvegi. „Þegar veiðigjaldið er orðið næststærsti kostnaðarliðurinn í útgerð, á eftir launakostnaði, þá krefst sú staða augsýnilega endurskoðunar,“ sagði hún.“
Nýjustu viðskipti og arðgreiðslur í sjávarútvegi geta ekki aukið samúð með þjóðarinnar með útgerðinni. Alls ekki.