Þurfum ekki niðurskurð, heldur uppskurð á kerfinu
„Við þurfum að glíma við þingmenn sem líta á vasa almennings og fyrirtækja sem hlaðborð – einskonar All-you-can-eat tilboð fyrir útgjaldaglaða stjórnmálamenn.“
Óli Björn Kárason skrifar í dag grein, sem birt er í Mogganum. Hann fjallar þar um efnahagsmál og það sem hann telur brýnast að gera. Að venju leggur hann til skattalækkanir og vill draga úr umsvifum ríkisins. „Við þurfum ekki niðurskurð heldur uppskurð á kerfinu, gera það einfaldara og skilvirkara,“ skrifar þingmaðurinn.
Stofnum fyrirtæki
„Sókn til bættra lífskjara verður ekki án þess að byggja undir atvinnulífið – tryggja hagstætt umhverfi fyrir lítil jafnt sem stærri fyrirtæki. Gefa þeim tækifæri til að auka verðmætasköpun – auka framleiðni – og gera þeim kleift að standa undir hærri launum. Það þarf frjóan jarðveg fyrir ný fyrirtæki og hvetja ungt fólk til að stofna fyrirtæki. Byggja undir framtaksmanninn. Þetta verður ekki gert með opinberum afskiptum og tilskipunum, heldur með því að horfast í augu við þá staðreynd að stjórnkerfið hefur vaxið okkur yfir höfuð. Við þurfum ekki niðurskurð heldur uppskurð á kerfinu, gera það einfaldara og skilvirkara,“ skrifar hann.
„All-you-can-eat tilboð“
„Ég hef áður bent á að við, sem viljum draga úr umsvifum ríkisins, lækka skatta á almenning og fyrirtæki, ýta undir framtaksmennina og einfalda leikreglurnar, erum í minnihluta á þingi. Við þurfum að glíma við þingmenn sem líta á vasa almennings og fyrirtækja sem hlaðborð – einskonar All-you-can-eat tilboð fyrir útgjaldaglaða stjórnmálamenn,“ en þetta má lesa í grein Óla Björns.
Spáir grámyglu
Og að lokum þetta úr langri grein þingmannsins Óla Björns Kárasonar.
„Hagsældin er ekki án áskorana til lengri og skemmri tíma. Kjarasamningar verða ekki einfaldir en uppstokkun tekjuskattskerfisins gæti orðið þungt lóð á vogarskálarnar til að tryggja stöðugleika og kaupinn kaupmátt. Ferðaþjónustan verður ekki sami aflvaki hagvaxtar á næstu árum og hún hefur verið. Ytra umhverfi sjávarútvegs er í mörgu óhagstætt og þungar skattbyrðar geta, að öðru óbreyttu, knésett fyrirtæki. Erfiðleikar í sauðfjárrækt hafa alvarleg áhrif á fjölmörg byggðarlög. Íslenskur landbúnaður – sem hefur náð ótrúlegum árangri í að auka hagkvæmni – þarf að mæta aukinni samkeppni. Slíkt er eðlilegt og heilbrigt ef leikreglurnar tryggja jafnræði. Ekkert land sem vill tryggja fullveldi sitt gagnvart öðrum þjóðum, getur leyft sér að fórna eigin matvælaöryggi. Popúlistar lofa almenningi ódýrum matvælum og eru tilbúnir til að fórna öflugri og heilbrigðri innlendri framleiðslu á altari lýðskrumsins.“