- Advertisement -

Skýrsla Gylfa er grátbrosleg

„En það grátbroslega í þessu öllu saman er að Gylfi Zoega hefur setið í Peningamálanefnd Seðlabankans allt frá árinu 2009, en það er hún sem ákveður hversu háir stýrivextir hér á landi eiga að vera.“

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Eins og fram hefur komið lét Katrín Jakobsdóttir forsætisráherra Gylfa Zoega prófessor í hagfræði gera skýrslu vegna komandi kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði.

Fram kom í skýrslunni að svigrúm til launabreytinga sé einungis 4% en það þarf ekki að koma á óvart enda ætíð lítið til skiptanna að mati ráðamanna og fulltrúa frá forréttindahópunum þegar kjarasamningar verkafólks eru við það að renna út.

Það er reyndar æði margt í þessari skýrslu frá Gylfa sem er forvitnilegt eins og t.d. það að hann leggur til að efla þurfi eftirlit Samkeppniseftirlitsins með kjörum og samkeppni á milli viðskiptabankanna vegna mikilvægis fjármálaþjónustu fyrir lífskjör almennings. Bendir Gylfi einnig á að til að bæta lífskjör þurfi að taka tillit til fleiri þátta en fjölda króna í launaumslagi og nefnir sem dæmi að vaxtakjör sem almenningi býðst skipti ekki síður máli.

Ég get svo sannarlega tekið undir það með Gylfa Zoega um að efla þurfi eftirlit Samkeppniseftirlitsins með kjörum og samkeppni á milli viðskiptabankanna vegna mikilvægis fjármálaþjónustu fyrir lífskjör almennings. Einnig er ég honum algerlega sammála um að vaxtakjör skipta almenning í þessu landi gríðarlegu miklu máli, enda hef ég margoft bent á þá okurvexti sem neytendum hér á landi er gert að taka.

Þú gætir haft áhuga á þessum

En það grátbroslega í þessu öllu saman er að Gylfi Zoega hefur setið í Peningamálanefnd Seðlabankans allt frá árinu 2009, en það er hún sem ákveður hversu háir stýrivextir hér á landi eiga að vera. Eins og allir vita þá eru það Gylfi Zoega og hans félagar í Peningamálanefnd Seðlabankans sem stjórna að stórum hluta þeim okurvöxtum sem neytendum er gert að greiða.

Er því ekki löngu komin tími á að efla eftirlit með Seðlabankanum og kalla nýtt fólk að borðinu sem er tilbúið að breyta peningastefnu Seðlabankans enda þarf Seðlabankinn að skýra af hverju eru stýrivextir hér á landi 4,25% á meðan þeir eru 0,50% í Noregi, 00,5% í Danmörku og þeir eru neikvæðir um 0,50% í Svíþjóð.

Það verður því að segjast alveg eins og er að það er eilítið grátbroslegt að tala um að hægt sé að bæta lífskjör með lækkun vaxta en skauta síðan algerlega frá því að það er hann og hans félagar í Peningamálanefnd Seðlabankans sem valda þeim okurvöxtum sem almenningi stendur til boða.

Það er rétt að rifja upp þegar samið var á hinum almenna vinnumarkaði síðast eða árið 2015 þá ákvað Seðlabankinn að hækka þrisvar sinnum stýrivextina í röð um 0,25% vegna þess að kjarasamningarnir voru alltof innhaldsríkir að þeirra mati. Peningamálanefndin hækkaði semsagt stýrivextina um 0,75% og fóru þeir uppí 5% ef ég man þetta rétt. En munum að öll verðbólguspá þeirra stóðst ekki eina einustu skoðun og í dag erum við með stýrivextina á sama stað og var fyrir kjarasamninganna 2015 eða í 4,25% þrátt fyrir að vera búin að vera í bullandi verðhjöðnun að undanskildum húsnæðisliðnum!

Já, valdið til lækkunar á okurvöxtum til neytenda liggur hjá Peningamálanefnd Seðlabankans og því er þessi skýrsla frá Gylfa grátbrosleg.

Vilhjálmur Birgisson.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: