Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hrífst ekki af sitjandi ríkisstjórn. „Taumlaus græðgi og spilling hafa tekið völdin,“ segir hún meðal annars í grein sem birt er í Mogganum í dag.
„Sitjandi ríkisstjórn hefur ekki sýnt í verki að hún beri hag þeirra tekjulægstu fyrir brjósti,“ skrifar Inga og heldur áfram: „Þvert á móti hefur hún sýnt það með aðgerðarleysi sínu og hroka að henni er nákvæmlega sama. Það gengur það langt, að ákveðnir stjórnarliðar halda því fram að ástandið sé ekki eins slæmt og það raunverulega er. Þeir snúa blinda auganu að örbirgðinni allt um kring, þ.e.a.s ef þeir eru ekki blindir á báðum. Ef þeir hafa það sjálfir gott þá er þeim nákvæmlega sama um hina.“
Ójöfnuðurinn eykst
„Taumlaus græðgi og spilling hafa tekið völdin. Það að skara eld að eigin köku er nákvæmlega það sem þeir kunna best. Hagsmunagæsla er kjörorð þeirra flestra. Hugsjónir og baráttu til að standa með þeim sem þurfa hvað mest á hjálpinni að halda er hvergi að finna á matseðli þeirra. Ófjöfnuðurinn eykst dag frá degi. Þeir ríku verða ríkari og þeir fátæku fátækari,“ bætir hún við.
Neitað um réttlæti
Að endingu skrifar formaður Flokks fólksins:
„Að lokum birti ég brot úr ræðu forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur vegna stefnuræðu Bjarna Benediktssonar þáverandi forsætisráðherra er hann flutti á 147. löggjafaþingi fyrir tæpu ári síðan.
„Og fólk á lægstu launum er beðið að vera þakklátt fyrir 20 þúsund krónur því að hlutfallslega sé það nú ekki lítið. Því miður þarf að bíða aðeins með réttlætið fyrir þig, er viðkvæðið, en allt stendur þetta til bóta. Þegar þetta fátæka fólk er beðið um að bíða eftir réttlætinu er um leið verið að neita því um réttlæti“.
Nú er Katrín Jakobsdóttir hæstvirtur forsætisráðherra og um leið skipstjórinn á stjórnarskútunni. Hún hlýtur að vilja stýra henni í átt að réttlætinu sem fátækt fólk getur ekki lengur beðið eftir.“
Tilvitnun í seinni hluta greinar Ingu sem birtist í Mogganum í dag.