- Advertisement -

Stjórnmálamenn féllu á prófinu

Björgvin Guðmundsson skrifar: Katrín kallaði á Gylfa Zoega hagfræðing og spurði hann hvort óhætt væri að hækka kaup verkafólks,láglaunafólks í væntanlegum kjarasamningum. Gylfi Zoega var ekki kallaður til þegar laun þingmanna voru hækkuð í 1,1 milljón eða um alls 75%. Hann var heldur ekki kallaður til þegar ráðherrar voru hækkaðir í 1,8-2 millj rúmar eða um 64% alls og Gylfi Zoega var heldur ekki kallaður til þegar æðstu embættismenn voru hækkaðir um allt að 48% og 18 mánuði til baka!!

Þingmenn voru að velta því fyrir sér í nokkra daga hvort þeir ættu að skila stóru kauphækkuninni; mig minnir að Katrín hafi meira að segja gagnrýnt hækkunina en þegar til kastanna kom var það aðeins einn þingmaður sem vildi skila hækkuninni, þ.e. Jón Þ.Ólafsson. Hinir vildu ekki missa hækkunina!

Sennilega hefðu þingmenn átt að ráðgast við stjórnmálafræðing eða sálfræðing um það hvort ráðlegt væri að þingmenn tækju við ofurhækkunum á sama tíma og þeir legðust gegn hækkunum verkafólks og almennra launamanna.

Gylfi Zoega segir að miklar launahækkanir geti haft svipuð áhrif á rekstrarstöðu útflutningsgreina og hækkun gengisins. Gylfi gefur til kynna, að mikil fækkun ferðamanna gæti verið framundan,  en slík fækkun mundi rýra lífskjör vegna lækkunar á gengi krónunnar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hugleiðingar Gylfa skipta litlu máli. Það sem skiptir máli er það, að lægstu laun verkafólks eru fyrir neðan fátæktarmörk, 235 þús á mánuði eftir skatt. Það lifir enginn af því. Það þarf að hækka lægstu laun verulega. Og sama gildir um lægsta lífeyri aldraðra og öryrkja, sem einnig verður að hækka myndarlega. Þessi lífeyrir er í dag 204-243 þúsund kr á mánuði eftir skatt.

Stjórnmálamenn féllu á prófinu, þegar þeir tóku við ofurlaunum sem þingmenn og ráðherrar og létu æðstu embættismenn fá allt að 48% hækkun og 18 mánuði til baka. Þetta ráðslag hellti olíu á eldinn í kjaramálunum. Það getur enginn hagfræðingur bætt úr því.

Stjórnmálamennirnir verða að líta í eigin barm. Þeir þurfa að lagfæra kaup láglaunafólks og lægsta lífeyri; ekki með einhverri hungurlús heldur myndarlega. Það er ekki hlutverk stjórnmálamanna að halda launum og lífeyri niðri við fátæktarmörk!

Björgvin Guðmundsson.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: