- Advertisement -

Rafræn skilríki verði meginauðkenningarleið

Stjórnsýsla Stórauka á notkun rafrænna skilríkja á næstu árum og stefna að því að þau verði meginauðkenningarleið fólks vegna ýmiss konar rafrænnar þjónustu og viðskipta á netinu. Þetta er inntak viljayfirlýsingar sem fjármála- og efnahagsráðherra og Samtök fjármálafyrirtækja undirrituðu í dag.

Meðal þess sem stefnt er að er að fólk geti átt öll algengustu viðskipti sín við fjármálafyrirtæki með rafrænum skilríkjum og að rafræn skilríki verði grundvöllur samskipta fjármálafyrirtækja og ríkisskattstjóra vegna neytendalána.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Steinþór Pálsson,stjórnarformaður Samtaka fjármálafyrirtækja, undirrituðu viljayfirlýsinguna. Nýttu þeir rafræn skilríki í síma við undirritunina, hvor á sinni skrifstofu.

Helstu markmið sem ríkið hefur sett sér að náist á næstu tveimur árum eru rafrænar þinglýsingar veðskuldabréfa, fyrirtækjaskrá verði rafræn og að rafræn skilríki verði grundvöllur samskipta fjármálafyrirtækja og ríkisskattstjóra vegna neytendalána. Rafræn skilríki verði notuð í samskiptum ríkisskattstjóra við framteljendur þegar ágreiningur skapast um skattskyldur eða þegar framteljendur vilja senda inn erindi til breytingar á framtölum, heilbrigðisstarfsmenn nýti þau í auknum mæli, m.a. við útgáfu vottorða og lyfseðla og aðgangur einstaklinga að eigin heilbrigðisupplýsingum og lyfjagagnagrunni verði opnaður með rafrænum hætti í áföngum á næstu árum. Þá verði opnað fyrir ýmsar umsóknir, t.d. í háskóla, með rafrænum skilríkjum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Samtök fjármálafyrirtækja stefna á að á næstu tveimur árum geti viðskiptavinir sótt um lán og keypt tryggingar og undirritað helstu skjöl með rafrænum skilríkjum. Rafræn skilríki verði hagkvæmasta auðkenningarleið viðskiptavina fjármálafyrirtækja að heimabönkum og þjónustuvefjum, hægt verði að stofna til viðskipta við fjármálafyrirtæki með rafrænum skilríkjum og staðfesta rafræn viðskiptaskjöl s.s. rafrænan reikning, með rafrænum skilríkjum.

Mikilvægt er að ríki og fjármálafyrirtæki starfi saman að því að auka útbreiðslu og notkun rafrænna skilríkja, en samstarfið stuðlar að nauðsynlegri samræmingu í gerð og notkun skilríkjanna og skapar grundvöll fyrir öflugt rafrænt viðskiptalíf. Ennfremur er ljóst að umtalsverð hagræðing og sparnaður næst fram með rafrænum viðskiptum og því hagur begggja aðila að útbreiðsla rafrænna skilríkja sem sé víðtækust og notkunarmöguleikar sem flestir.

Rafæn skilríki eru einu rafrænu auðkennin sem hægt er að nýta til fullgildrar undirritunar. Skilríkin hafa verið í umræðunni undanfarið, ekki síst í ljósi netöryggis. Skilríkin veita mesta öryggi sem í boði er, samkvæmt úttekt sérfræðinga. Öryggið er meðal annars fólgið í því að lykilorð eru hvergi geymd miðlægt.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: