Trúlega er ekki fjarri að segja að ritstjóraskrifstofa Morgunblaðsins sé nokkurs konar viðhengi við Borgartún 35, en í því húsi starfa lobbýistar ríka fólksins. Frá báðum stöðum hafa ítrekað komið fullyrðingar um að jafnvel lægst launaðasta fólkið geti hæglega sent Ísland rakleitt til fjandans slái það ekki af kröfum sínum um ögn hærri laun.
Í báðum húsum, B35 og í Hádegismóum, vantar ekki hugmyndaflugið. Í Mogga dagsins skrifar Davíð Oddsson:
„Verkefnið í komandi kjarasamningum er að verja kjör almennings með því að koma í veg fyrir skell í atvinnulífinu samhliða hækkandi verðbólgu, sem getur hæglega gert vart við sig á ný þó að ytri aðstæður hafi tryggt óvenjulega hagfelldar verðbólgutölur á liðnum árum, þrátt fyrir miklar launahækkanir.“
Þvílíkt og annað eins. Davíð, en hvað um svigrúmið til launahækanna?
„Augljóst er þegar horft er á þróun og horfur í efnahagslífinu og miklar samningsbundnar launahækkanir síðustu ára, auk gríðarlegra hækkana á samningsbundnum greiðslum fyrirtækja í lífeyrissjóði, að ekkert svigrúm er í atvinnulífinu til launahækkana“
Í dag má búast við að yfirlobbýistar B35 hringi hver af öðrum í sinn Davíð og hæli karlinum fyrir innleggið. Almenningur lætur þetta varla trufla sig. Alvaran er ekki meiri en svo að daglega birtast fréttir um miklar launahækkkanir aðalsins.