- Advertisement -

Koma Piu var dónaskapur og óvirðing

Sanna Magdalena Mörtudóttir.

Þegar við minnumst þess að 100 ár eru liðin frá fæðingu baráttumannsins Nelson Mandela, sem barðist af fullum krafti gegn aðskilnaðarstefnunni, erum við einnig minnt á hversu ógeðslega langt í land við eigum. Þó að mannkynið hafi nú almennt viðurkennt að ekki sé lengur í lagi að eiga svart fólk, berja það sviphöggum og neyða það til þess að vinna fyrir aðra talda æðri þeim, með tilvísun til stigveldisskipts píramída mannkynsins um hver sitji á botninum og hver tróni á toppnum og drottni vegna húðlitar og uppruna sem er talinn alfa og omega alls, og þó að við meinum ekki lengur dökku fólki að nota opinber rými til jafns á við aðra (um þetta má þó deila þar sem svart fólk erlendis nýtur ekki öruggis, er myrt úti á götu af hendi lögreglu sem á að gæta þeirra, brún börn eru aðskilin frá foreldrum sínum og geymd í búrum, þar sem foreldrar þeirra eru stimplaðir „ólöglegir“ (hvernig getur einstaklingur verið ólöglegur?) fyrir í örvæntingu sinni að flýja hörmulegar aðstæður og leitast við að skapa fjölskyldu sinni betra líf og fólk með dekkra litarhaft en staðlaða hvíta viðmiðið óttast þess að mæta ofbeldi, yfirheyrslu eða ágenginna spurninga og athugasemda), þá er hættulegum útilokunaraðferðum enn beitt og viðhaldið með hertum landamæralögum og orðræðu sem á að hindra að „hinir“, utanaðkomandi eða „ógnin“ nái að ráðast inn í svokallaða siðmenningu Vesturlandanna.

Útlendingaandúð, kynþáttafordómar og öfgaþjóðernishyggja elur á sundrungu og er þátttaka Piu Kjærsgaard á hátíðarfundi Þingvalla, ekki til þess fallin að senda rétt skilaboð út í íslenska samfélagið sem gefur sig út fyrir að vera ofarlega á mannréttindarskalanum og fordæmingu á hvers kyns mismunun. Að aðskilja opinber niðrandi ummæli manneskju frá heildarmyndinni og segja að Pia hafi verið hér vegna embættis síns en ekki vegna skoðana, er óásættanlegt. Þó hún komi á vegum embættis þá er hún einstaklingurinn, sem hefur látið niðrandi ummæli í garð erlendra aðila falla, að koma. Með því að bjóða henni að halda ræðu er því verið að viðurkenna þessa hegðun, segja að þetta sé allt í lagi. Þó þú segir eitthvað ógeðslega ljótt um útlendinga þá máttu samt alveg tala á fínum fundi okkar þar sem Ísland fagnar 100 ára afmæli fullveldisins. Hæ hó jibbý jei.

Að halda því fram að gagnrýni á þátttöku Piu og hatursorðæðu hennar gagnvart útlendingum, sé „dónaskapur gagnvart danska þjóðþinginu og dönsku þjóðinni“ endurspeglar hvernig gjörðir og ábyrgð fordómafulls einstaklingsins, er undanskilin frá umræðunni, þar sem við almenningur sem höfum látið í okkur heyra eigum að skammast okkar fyrir að dirfast til að benda á hið augljósa.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það er dónaskapur og hreint út sagt óvirðing við alla þá fjölbreyttu einstaklinga, sem hér búa á þessu landi, að fagna undirritun sambandslagasáttmálans sem síðar leiddi til fullveldis Íslands, með því að gefa öfgaþjóðernissina orðið, rými og auka vægi. Í dag fagna ég öllum þeim sem stóðu upp gegn þessari athöfn og sögðu nei við rasisma.

P.S. vegna kynþáttahyggju samfélagsins óttast ég oft sem dökk kona að tjá mig opinberlega gegn fordómafullum einstaklingum, þar sem ég hræðist að vera talin gera of mikið úr hlutunum, taka hlutina úr samhengi, vera ófær um að meta hvað séu kynþáttafordómar og útlendingaandúð, eða verði áminnt fyrir að eiga bara ekki að taka öllu svona inn á mig. Óttast maður oft að það verði ekki tekið mark á manni og að gagnrýnin yrði sennilegri sterkari komandi frá hvítum einstaklingi. Að sjá samstöðu gegn því að talsmaður útlendingaandúðs hafi ávarpað þennan hátíðarfund, fyllir hjarta mitt af hlýju en á sama tíma reiði gagnvart því að við lifum á tímum þar sem slíkar útilokandi orðræður eiga sér ennþá stað og virðast því miður vera að styrkjast.

Sanna Magdalena Mörtudóttir.

(Fyrirsögnin er Miðjunnar, Greinin birtist á Facebokksíðu höfundar).

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: