- Advertisement -

„Það er fáránlegt hjá Brynjari Níelssyni…“

Hinn prýðilegi dálkahöfundur Þórlindur Kjarrtansson víkur að Brynjari Níelssyni þingmanni í nýjasta pistli sínum í Fréttablaðinu. Mar Brynjars á blaðamönnum og fjölmiðlum hefur vakið athygli og hversu lágt hann metur fjölmiðla. Þórlindur skrifar:

Í vikunni vakti þingmaðurinn Brynjar Níelsson athygli fyrir að lýsa því yfir að íslenskir fjölmiðlar væru „í ruslflokki“—að minnsta kosti allir nema hinn eini sanni fjölmiðill þar sem réttar skoðanir eru varðar af aðdáunarverðum heiðarleika. Það er svo sannarlega ekki ný saga á Íslandi eða annars staðar að stjórnmálamönnum finnist fjölmiðlamenn vera villtir bjánar, og að fjölmiðlafólki finnist stjórnmálamenn vera spilltir kjánar. Ætli hvorri stéttinni sýnist ekki á yfirborðinu að fremur lítið komi til starfa hinnar. Blaðamenn gætu auðveldlega séð sig standa í pontu á þingi og stjórnmálamenn telja sig eflaust geta skrifað betri og gáfulegri fréttir og leiðara heldur en blaðasnáparnir.

Blaðamenn og stjórnmálamenn eiga það reyndar að einhverju leyti sammerkt að þeir halda lengi í þá hugmynd um sjálfa sig að þeir geti auðveldlega dembt sér inn í umræðu um hvaða sérhæfða og flókna viðfangsefni sem er og vitað svörin betur en nokkur annar. Það er reyndar nauðsynlegt fyrir báðar stéttir að geta sett sig hratt og vel inn í ýmiss konar málefni, en það er hollt að temja sér að setja hæfilegan fyrirvara við eigin getu til þess að segja fólki fyrir verkum eða til syndanna fyrir að kunna ekki sitt fag.

Það er fáránlegt hjá Brynjari Níelssyni að gefa sér að blaðamenn séu meira og minna allir að reka erindi sín eða hugsjónir í störfum sínum. Þótt enginn skilji persónuleika sinn, metnað eða lífsviðhorf eftir heima þegar þeir mæta í vinnuna þá held ég að langflestir blaðamenn séu einfaldlega að hugsa um að skrifa og segja góðar, áhugaverðar og sannar fréttir. Vitleysa Brynjars á líklega rætur sínar í þeirri rótföstu hugmynd stjórnmálamanna að samfélagið snúist fyrst og fremst um þá sjálfa og það sem þeir eru að gera. Sorrí, það er misskilningur.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: